Skoðun

Til stuðnings Ólafíu

Félagsmenn í VR eiga þess kost að kjósa sér nýja forystu á næstu dögum. Fjölmargt frambærilegt fólk býður sig fram til stjórnar félagsins en þar er kosið um helming sæta í þessu kjöri. Í framboði til formanns eru þau tvö, núverandi formaður, Stefán Einar Stefánsson, og Ólafía B. Rafnsdóttir.

Í mínum huga er valið auðvelt og það er mér sérstakt fagnaðarefni að fá að kjósa manneskju sem ég treysti og veit að verður góður og farsæll formaður.

Veikt umboð formanns

Ég hef verið félagsmaður í VR alla mína starfsævi eða í um þrjátíu ár. Fyrstu árin fór ég reglulega á fundi og þar var alltaf sami hópurinn saman kominn, stjórnin, starfsfólk og nokkrir úr trúnaðarmannaráði félagsins. Þá voru um 15 þúsund manns í félaginu en um 100 manns mættu á fundi.

Í dag eru tæplega 30 þúsund félagar í VR. Enn er það svo að fáir taka þátt í félagsstarfinu og enn færri mæta á auglýsta fundi. Það er m.a.s. fullt af ungu fólki sem veit ekki einu sinni að það er í félaginu þrátt fyrir að það greiði þangað félagsgjöld í hverjum mánuði. Aðeins 17% félagsmanna kusu í síðustu kosningum félagsins og núverandi formaður fékk um 900 atkvæði. Það þýðir að um 3% félagsmanna í VR völdu hann sem formann. Þetta er ekki í lagi og þessu er hægt að breyta en það þarf að vinna að breytingum. Félagið þarf að ná til félagsmanna sinna og gera það áhugavert og spennandi að tilheyra þessu stóra stéttarfélagi sem hefur alla möguleika á að vera sameiningartákn verslunar- og skrifstofufólks.

Hvar eru konurnar?

Aldrei í 122 ára sögu félagsins hefur formaðurinn verið kona þrátt fyrir að meirihluti félagsmanna sé konur. Það var skiljanlegt fyrstu árin þegar félagið var lokaður karlaklúbbur og konum var ekki heimill aðgangur að félaginu, en í dag eru 62% félagsmanna konur og ekki fækkar þeim. Það væri forvitnilegt að vita hvað breyttist í stjórn og starfsemi félagsins ef kona væri við stjórnvölinn.

Ekki kjósum við konu sem formann í VR bara vegna kyns hennar. Konan sem er í framboði til formanns í VR árið 2013, Ólafía B. Rafnsdóttir, er heiðarleg og öflug kona sem gert hefur fjölmörg kraftaverk á sinni þrjátíu ára starfsævi. Hún hefur mikla og fjölbreytta starfs- og lífsreynslu og hefur þroskaða sýn á sitt gamla félag. Hún er áræðin en samt skynsöm og á auðvelt með að drífa fólk með sér í krefjandi verkefni. Margar konur af hennar kynslóð geta samsamað sig henni því hún eignaðist börn ung og hóf ekki nám fyrr en nálægt fertugu og gerði það með krafti og einurð. Hún er alþýðleg og kallar fram það góða í fólki.

Fyrir hvað stendur Ólafía?

Nú býður hún sig fram til að vera í forystu í stéttarfélaginu sem ég hef tilheyrt í áratugi. Áherslur Ólafíu eru í starfsmenntamálum og kjaramálum og hún vill gera félagið aðgengilegra og opnara fyrir félagsmenn auk þess sem hún talar fyrir auknu lýðræði m.a. með því að trúnaðarmenn VR sitji í auknum mæli í stjórnum og nefndum á vegum félagsins. Ólafía er vinnusöm og útsjónarsöm og alltaf heil í því sem hún tekur sér fyrir hendur. Hún verður formaður allra VR félaga.

Ég trúi því að kjör Ólafíu til formanns, hennar störf og hennar áherslur geti orðið til þess að ég geti bráðum orðið stolt af því að vera félagi í VR. Því kýs ég Ólafíu sem formann í VR þann 7. mars næstkomandi.




Skoðun

Sjá meira


×