Skoðun

Erlendir kröfuhafar mega ekki ráða ferðinni

Heiðar Guðjónsson og hagfræðingur skrifa
Stærsta hagsmunamál almennings næstu vikurnar er hvernig haldið verður á samningum við erlenda kröfuhafa þrotabúa gömlu bankanna. Kröfuhafarnir leggja mikið á sig til að stýra opinberri umræðu og þrýsta á um hagstæða útkomu, þannig að þeir fái sem mest greitt í erlendum gjaldeyri.

Úr vasa almennings

Vandi Íslands felst í því að of lítill gjaldeyrir er í landinu til að mæta afborgunum erlendra lána. Gjaldeyrissköpun þjóðarinnar er skert vegna haftakerfis sem hamlar fjárfestingu og uppbyggingu útflutningsgreina. Það er því ljóst að Íslendingar hafa ekki efni á því að láta mikinn gjaldeyri af hendi til utanaðkomandi aðila.

Ég hef ítarlega fjallað um þetta í greinum síðustu ár, svo sem fyrir ári síðan í greininni Hrunið 2016. Þar varaði ég við því að ef ekki yrði horfið af þeirri braut sem þjóðin var á yrði hætt við greiðslufalli ríkisins. Sem betur fer tókst að afstýra undirritun nauðasamninga sl. haust, en þar mátti litlu muna, því Seðlabankinn leyfði kröfuhöfum að flytja yfir 300 milljarða, um 2.500 milljónir dollara, úr landi í september og ætlaði að hleypa margfaldri þeirri fjárhæð úr landi fyrir áramót. Þarna var komið í veg fyrir stórslys.

Afsláttur eða rétt verð

Með því að hleypa ekki kröfuhöfum úr landi, og veita þeim þar með undanþágur frá gjaldeyrishöftum sem eru að sliga íslenskt hagkerfi og heimili, var ekki verið að níðast á kröfuhöfum. Þeir eiga ekki skilið að hafa forréttindi umfram Íslendinga. Íslendingar geta ekki verið gestir í eigin landi.

Nú er umræðan sú að selja eigi Arion- og Íslandsbanka, sem eru í eigu kröfuhafa að langmestu leyti, til íslenskra fjárfesta og greitt verði í erlendum gjaldeyri. Í þeirri umræðu hefur verið nefnt að mikill afsláttur verði veittur í þeim viðskiptum. Afsláttur frá hverju, spyr ég? Það er ekkert verð á þessum bönkum. Ef horft er til öflugra banka í hagkerfum sem ekki búa við höft eða offjárfestingu í bankakerfinu sést að þeir hafa markaðsvirði langt fyrir neðan bókfært verð. Það er því fráleitt að tala um afslátt, þótt söluverð sé lægra en bókfært verð.

Eins er það svo að raunverulegt gengi krónunnar er ekki þekkt en vísbendingar eru um að það sé mun lægra en hið skráða haftagengi Seðlabanka Íslands. Gjaldeyrisútboð Seðlabankans hafa sýnt verð í kringum 240 krónur á móti evru, en besti mælikvarðinn er sá að krónan hefur verið nánast í samfelldum veikingarham frá hruni og verðbólgan étur upp verðgildi krónunnar innanlands. Það er ekki jafnvægi á utanríkisviðskiptum sem þýðir að krónan er of sterk, ef eitthvað er.

Allt tal um afslátt er því einungis til að afvegaleiða umræðuna.

Að hylja slóð sína

Í vikunni bárust fréttir af því að fjárfestingarbankinn Goldman Sachs stæði í samningum um að endurfjármagna Orkuveitu Reykjavíkur. Þetta er nú sérstök framsetning fyrir nokkurra hluta sakir. Goldman Sachs fjármagnar ekki fyrirtæki eins og OR, heldur miðlar hann skuldum þeirra til annarra. Þeir sem standa að baki fjármögnuninni eru erlendir kröfuhafar þrotabúanna. Enda er ákvæði í þeim samningi að klára þurfi nauðasamninga við kröfuhafa föllnu bankanna svo af fjármögnuninni verði. Með öðrum orðum er verið að veifa tugum milljónum dollara framan í stjórnvöld, til að ná út þúsundum milljóna dollara, eða hundraðfaldri þeirri fjárhæð. Það er augljóst hve lítið vit er í slíkum viðskiptum.

Þetta á ekki að koma hlutaðeigandi á óvart. Það hefur verið löngu vitað að stærstu kröfuhafarnir tengjast í gegnum Goldman Sachs, sem miðlaði í upphafi stórum hluta krafnanna, og svo eru margir í kröfuhafahópnum fyrrverandi starfsmenn bankans. Þetta var útskýrt í minnisblaði sem undirritaður sendi Seðlabanka Íslands árið 2009.

Fjölmiðlatök kröfuhafa

Fjölmiðlafulltrúar kröfuhafa, lögfræðingar þeirra og bankamenn vinna að hagsmunum umbjóðenda sinna en ekki hagsmunum íslensku þjóðarinnar. Þeir reyna kerfisbundið að draga úr trúverðugleika þeirra sem standa á rétti þjóðarinnar og reyna að afvegaleiða umræðuna. Við verðum að standa fast á rétti okkar og ekki leyfa afglöpunum í kringum IceSave að endurtaka sig. Hvorki Seðlabankinn né ríkisstjórnin eiga að stýra viðræðum við kröfuhafa. Það þarf að fá til starfans óháða sérfræðinga. Það hefur sagan kennt okkur.




Skoðun

Sjá meira


×