Innlent

Enn í eigu kaupanda þótt seljandi vilji rifta

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Fyrrverandi eigandi vill rifta kaupsamningi en kaupandinn vill halda Skíðaskálanum.
Fyrrverandi eigandi vill rifta kaupsamningi en kaupandinn vill halda Skíðaskálanum. Fréttablaðið/PJetur
Skíðaskálinn í Hveradölum er enn eign samnefnds einkahlutafélags sem keypti skálann í september síðastliðnum en er ekki kominn aftur í hendur seljandans eins og sagt var í Fréttablaðinu í síðustu viku.

Frásögn Fréttablaðsins byggði á skráningu Skíðaskálans hjá Fasteignaskrá Íslands. Vegna mistaka þar var skálinn færður aftur yfir á félagið SHS-veitingar ehf. þann 11. janúar síðastliðinn. Byggði sú skráning á einhliða yfirlýsingu SHS-veitinga um riftun kaupsamningsins vegna vanefnda kaupandans sem láðst hafði að borga 6,5 milljóna króna afborgun 7. janúar.

Kaupandinn samþykkir hins vegar alls ekki riftun samningsins. Samkvæmt upplýsingum frá Sýslumanninum á Selfossi er kaupandinn því eigandi Skíðaskálans þar til úr riftunarmálinu hefur verið skorið.

Inga Lísa Sólonsdóttir, eigandi Skíðaskálans í Hveradölum ehf. kveðst nú vinna hörðum höndum að því að finna fjármagn til að ljúka kaupunum. Hún hafi enn á prjónunum ýmis áform um uppbyggingu starfsemi á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×