Skoðun

Hagkerfi í ógöngum

Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir skrifar
Vaxtakostnaður Íslendinga vegna íslensku krónunnar er óásættanlegur. Mat Alþýðusambandsins og Viðskiptaráðs Íslands á fjármagnskostnaði vegna íslensku krónunnar er 4%-4,5% að meðaltali á ári til langs tíma. Það eru þeir vextir sem Íslendingar greiða, svokallað Íslandsálag, umfram evrulöndin, Bandaríkin o.fl. lönd vegna verðbólgu, verðtryggingar og óstöðugleika sem rekja má til krónunnar vegna smæðar hennar.

Skuldir ríkissjóðs eru 1.500 milljarðar. Gróflega reiknað má gera ráð fyrir því að aukakostnaður ríkissjóðs vegna Íslandsálagsins sé um 60 milljarðar á ári. Ef við veltum bara fyrir okkur 60 milljarða aukavaxtakostnaði ríkisins vegna íslensku krónunnar má til samanburðar nefna að rekstur Landspítalans kostar árlega 30 milljarða. Þessi vitneskja er óbærileg þegar niðurskurður og ástandið í heilbrigðiskerfinu er haft í huga. Um 3,8% af landsframleiðslunni fara í Íslandsálagið vegna skulda ríkissjóðs.

Samanlagðar skuldir ríkissjóðs, heimila og fyrirtækja á Íslandi eru 5.200 milljarðar. Íslandsálagið af öllum þessum skuldum var 221 milljarður árið 2011. Þessi aukakostnaður er gríðarlegur og er meiri en rekstur alls heilbrigðiskerfisins. Það munar um minna.

Þeir sem þekkja þessa stöðu hafa fyrir löngu gert sér grein fyrir því að við þetta geta heimilin og atvinnulífið í landinu ekki búið. Stór hópur þjóðarinnar sér að þessi viðfangsefni verða ekki leyst öðruvísi en með upptöku evru og inngöngu í Evrópusambandið.

Annar hópur sem einnig gerir sér grein fyrir því að við þetta verður ekki unað talar mjög ákaft fyrir einhliða upptöku annars gjaldmiðils þrátt fyrir yfirlýsingar Seðlabanka Íslands, álit Viðskiptaráðs Íslands og fleiri aðila um að það sé ekki raunverulegur valkostur við núverandi aðstæður. Peningastefnunni yrði kippt úr sambandi, enginn lánveitandi yrði til þrautavara og Seðlabankinn gæti ekki haft áhrif á þróun verðlags eða sveiflur í atvinnulífinu.

Þeir stjórnmálaflokkar sem hafa það á stefnuskrá sinni að fækka valkostum og möguleikum íslensku þjóðarinnar í mikilvægasta hagsmunamáli Íslendinga með því að slíta viðræðum við ESB bera ekki hag þjóðarinnar fyrir brjósti.




Skoðun

Sjá meira


×