Skoðun

Kynfrelsi, ofbeldi og Hæstiréttur

Steinunn Rögnvaldsdóttir skrifar
Nýfallinn dómur Hæstaréttar nr. 521/2012 hefur vakið hörð viðbrögð. Í dómnum sýkna fjórir hæstaréttardómarar sakborninga af ákæru um kynferðisbrot. Málsatvik eru þau að auk þess að beita margvíslegum barsmíðum og ofbeldi tróð ofbeldismaðurinn fingrum upp í endaþarm og leggöng þolanda. Meirihluti Hæstaréttar komst að þeirri niðurstöðu að athæfið teldist ekki kynferðisbrot þar sem ásetningur geranda hefði verið að meiða þolanda, en ekki af kynferðislegum toga.

Þessum skilningi dómaranna hefur verið mótmælt. Vísað hefur verið í skilning alþjóðasamfélagsins á nauðgunum í stríði sem kynferðisofbeldi, þar sem ætlunin er sannarlega að meiða, en ekki fá útrás fyrir greddu. Bent hefur verið á að ekki er dæmt eftir og í anda laga sem varða brot á kynfrelsi fólks og að skilgreining á kynferðisofbeldi getur ekki grundvallast á því hvort gerandi hafi kynferðislega nautn af verknaðinum. Hér var brotið á kynfrelsi þolanda en kynfrelsi er frelsi hverrar manneskju til að ákveða hvort hún vill taka þátt í kynferðislegum athöfnum.

Brot á kynfrelsi skilgreinir kynferðisafbrot. Almenningur hefur tileinkað sér þennan skilning á kynferðisbrotum og þess vegna er ekki skrítið hve hörð viðbrögð almennings hafa verið við dómi Hæstaréttar. Að auki bætist við tilfinning um valdaleysi.

Gagnrýni á dómskerfið í kynferðisafbrotamálum er ekki ný, hún er sagan endalausa. Við hljótum að velta fyrir okkur hvað stendur í vegi fyrir því að lög sem eru afrakstur áratuga langrar kvenfrelsisbaráttu og sýna skýran vilja löggjafans til að verja kynfrelsi virðast ekki skipta ofangreinda hæstaréttardómara máli.

Femínistafélag Íslands harmar dóm Hæstaréttar og lýsir yfir stuðningi við baráttufólk fyrir kynfrelsi og gegn kynferðisofbeldi sem hefur gagnrýnt dóminn. Femínistafélagið stendur fyrir opnum fundi fimmtudaginn 14. febrúar að kvennaheimilinu Hallveigarstöðum um dóm Hæstaréttar og vernd kynfrelsis. Dómarar Hæstaréttar eru sérstaklega hvattir til að mæta.


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.