Skoðun

Fyrir krakka með hár, kalla með skalla og allt þar á milli

Haraldur F. Gíslason skrifar
Nokkuð hefur verið rætt og ritað um leikskólastigið undanfarin misseri. Leikskólakennarar eru vanir því að berjast fyrir tilverurétti sínum. Það er ekkert nýtt. Leikskólakennarar hafa líka alltaf barist með jákvæðni og bjartsýni að leiðarljósi. Það ætlum við að halda áfram að gera, því það er það sem heldur okkur saman og gerir okkur að stoltum sérfræðingum á framsæknu skólastigi.

Leikskólinn er fyrsta skólastigið. Eftir að ný lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda voru samþykkt árið 2008 þarf nú fimm ára meistaranám til að fá leyfisbréf til kennslu á leikskólastigi. Með því viðurkennir löggjafinn að kennsla á leikskólastigi hafi bæði verið vanmetin og störfin breyst það mikið að nauðsynlegt sé að leikskólakennarar hafi fimm ára sérfræðimenntun.

Viðmiðunarhópar leikskólakennara eru því eðlilega aðrir sérfræðingar. Það er fagleg skylda leikskólakennara að verðmeta sérfræðimenntun sína miðað við breyttar forsendur. Leikskólakennarar eiga eins og kennarar á öðrum skólastigum töluvert í land með að nálgast meðallaun annarra sérfræðinga. Það verður verkefni næstu ára.

Nóg um það. Í dag er Dagur leikskólans og þá fögnum við fjölbreytileikanum. Í leikskólanum rúmast ólíkar skoðanir framsækinna kennara sem allir vilja mennta einstaklinga og mæta þeim á þeirra forsendum eftir áhuga og getu. Einstaklingar eru ólíkir og kennsluaðferð sem virkar fyrir einn þarf ekkert endilega að henta öðrum. Þetta vita leikskólakennarar og starfa eftir alla daga.

Í leikskólanum býr mikið frelsi. Frelsi til að þróa kennsluaðferðir, frelsi til að nota allan heiminn sem kennslustofu, frelsi til að skapa og hafa áhrif á einstaklinga á jákvæðan hátt til frambúðar. Í því felst mikil ábyrgð sem við verðum að virða og standa undir.

Félag leikskólakennara vill sérstaklega óska Kristínu Dýrfjörð og Margréti Pálu Ólafsdóttur til hamingju með að hljóta viðurkenningu Kynningarnefndar FL og FSL Orðsporið 2013. Í Margréti og Kristínu endurspeglast fjölbreytileiki leikskólans. Þær hafa hvor á sinn þátt átt mikinn þátt í að upphefja leikskólastigið til vegs og virðingar í samfélagi okkar. Fögnum fjölbreytileikanum. Leikskólinn er fyrir krakka með hár, kalla með skalla og allt þar á milli.




Skoðun

Sjá meira


×