Innlent

Bjarni ákærður fyrir skattsvik

Stígur Helgason skrifar
Bjarni Ármannsson
Bjarni Ármannsson
Sérstakur saksóknari hefur gefið út ákæru á hendur Bjarna Ármannssyni, fyrrverandi bankastjóra Glitnis, fyrir skattsvik á árunum 2007 til 2009. Alls sveik hann rúmar tuttugu milljónir undan skatti á þessu tímabili, að því er fram kemur í ákærunni.

Í ákærunni, sem er fyrir „meiriháttar brot á skattalögum,“ eru talin upp fimm sjálfstæð brot, sem snúast um að hann hafi látið undir höfuð leggjast að telja fram hagnað af sölu hlutabréfa í fyrirtækinu Sjávarsýn, arðgreiðslur af hlutabréfum í E-Trade Securities LLC, vaxtatekjur af viðskiptum hjá sama félagi og vegna danskra og breskra bankareikninga, og síðast en ekki síst vegna gjaldmiðlaskiptasamninga.

Heildartekjur hans af öllum þessum viðskiptum námu 205 milljónum á tímabilinu, að því er segir í ákæru, og af þeim bar að greiða fjármagnstekjuskatt, samtals 20,5 milljónir.

Í yfirlýsingu frá Bjarna viðurkennir hann að mistök hafi verið gerð við skattframtalið en að þau hafi verið leiðrétt og hann greitt skattinn. Ákæran komi honum því verulega á óvart.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×