Innlent

Þrír fjórðu hlutar niðurhals ólöglegir

Þorgils Jónsson skrifar
Aðstandendur átaksins vona að landsmenn átti sig á áhrifum þess að sækja efni með ólöglegum hætti. Mynd/Gunnar
Aðstandendur átaksins vona að landsmenn átti sig á áhrifum þess að sækja efni með ólöglegum hætti. Mynd/Gunnar
Höfundar, flytjendur og framleiðendur íslenskrar tónlistar, kvikmynda og bóka, hófu í gær átak til að hvetja Íslendinga til að nýta sér löglegar leiðir til að nálgast tónlist, kvikmyndir og bækur á netinu.

Fram kom í máli aðstandenda átaksins að sala á tónlist, hvort sem um er að ræða íslenska eða erlenda, hefur dregist verulega saman frá árinu 2001 og benda kannanir til þess að tæpur helmingur allrar tónlistar og um 75 prósent kvikmynda hafi fengist án þess að höfundar eða listamenn hafi fengið greitt fyrir.

Megintilgangur átaksins, að því er fram kemur í tilkynningu, er að vekja athygli á „þeim áhrifum sem ólögleg afritun og dreifing á efni hefur á afkomu listamanna og annarra sem starfa við skapandi greinar" og kalla eftir umræðu um þessi mál með von um að vitundarvakning muni eiga sér stað. Samhliða því er vakin athygli á því að Íslendingar geta nálgast afþreyingu á netinu eftir löglegum leiðum.

Í tengslum við átakið hefur nýr vefur verið settur í loftið, á slóðinni tonlistogmyndir.is, þar sem eru upplýsingar um hvernig má nálgast afþreyingarefni á löglegan hátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×