Innlent

Stjórnarskrármálið úr nefnd

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Illugi gunnarsson og Valgerður Bjarnadóttir
Illugi gunnarsson og Valgerður Bjarnadóttir
Meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar stefnir að því að taka frumvarp um nýja stjórnarskrá úr nefnd í dag. Málið er á dagskrá Alþingis á fimmtudag.

Fulltrúar frá Samfylkingunni funduðu með stjórnarandstöðunni um málið í gær, en vegna forfalla mætti enginn fulltrúi Vinstri grænna á fundinn. Valgerður H. Bjarnadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, segir málið ekkert hafa breyst á fundinum. Menn hafi þó náð að skiptast á skoðunum. En verður málið tekið úr nefnd í dag?

„Já, við höfum stefnt að því. Við þurfum að sjá hvernig staðan er í fyrramálið [í dag]. Það vantar einhver nefndarálit."

Það er einmitt það sem Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sem sat fundinn í gær, gagnrýnir harðlega. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi fengið nefndir til að skila áliti, sem séu ekki öll fram komin. „Þrátt fyrir það er meirihlutinn búinn að ákveða hvaða breytingartillögur hann leggur fram og að taka málið úr nefnd á morgun [í dag]."

Illugi segir þetta í takt við annað í málinu og svona vinnubrögð hefðu ekki verið viðhöfð við lagafrumvarp, hvað þá um breytingu á sjálfri stjórnarskránni. Hann segir ekkert hafa komið fram á fundinum í gær í sjálfu sér.

„Þar kom ekkert nýtt fram, annað en það að staðfest var að það væri vilji meirihlutans að gera allsherjar breytingar á stjórnarskránni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×