Innlent

Fiskveiði og stjórnarskrá stóru málin

Alþingi Samkvæmt starfsáætlun Alþingis eru 27 fundardagar fram að þinglokum, sem verða 15. mars. Alls liggja 56 stjórnarmál fyrir, auk aragrúa þingmannamála.fréttablaðið/gva
Alþingi Samkvæmt starfsáætlun Alþingis eru 27 fundardagar fram að þinglokum, sem verða 15. mars. Alls liggja 56 stjórnarmál fyrir, auk aragrúa þingmannamála.fréttablaðið/gva
Alþingi kemur saman á ný eftir jólafrí á mánudaginn. Þingmenn ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur varðandi þingmál, en fyrsta mál á dagskrá er atkvæðagreiðsla um rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða.

Þeim er heldur ekki til setunnar boðið, en aðeins eru 27 þingfundir eftir fram að þingfrestun, samkvæmt starfsáætlun. Störfum Alþingis lýkur 15. mars og þá tekur kosningabaráttan við.

66 stjórnarmál

Fyrir Alþingi liggja 65 mál frá ríkisstjórninni; 56 frumvörp til laga og 9 þingsályktunartillögur. Ein þeirra verður afgreidd strax á mánudaginn, eins og áður segir, þegar atkvæðagreiðsla fer fram um rammaáætlun.

Við þetta má bæta einu nefndarfrumvarpi; frumvarpi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um nýja stjórnarskrá.

Þegar litið er til stöðu mála á þinginu verður að beina sjónum fyrst og fremst að málum ríkisstjórnarflokkanna. Afgreiðsla þeirra segir til um hvernig viðkomandi ríkisstjórn hefur tekist til með að koma stefnumálum sínum áfram.

Auk stjórnarmálanna liggur fjöldi þingmannamála fyrir; 84 lagafrumvörp og 86 þingsályktunartillögur. Samanlagður málafjöldi er því yfir 200 mál, en stjórnarmálin eru 66.

Tiltölulega normalt

Þó 66 mál virðist mikið, sérstaklega þegar litið er til þess að aðeins eru 27 þingfundir eftir, er ástandið hvorki verra né betra en oft áður.

„Þetta er nú ekkert óvenjulega mikið af málum sem bíður afgreiðslu. Ástandið er bara tiltölulega normalt,“ segir Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis.

Hann segir að mörg af mest aðkallandi málum yfirstandandi þings hafi verið afgreidd fyrir jól og önnur hafi einnig komið úr nefndum fyrir jól. Allnokkur mál liggi fyrir sem ekki hafi komist á dagskrá og reynt verði í vikunni að koma þeim áfram. En á hann von á að það náist að klára megnið af málunum fyrir þinglok?

„Já, ég held það. Auðvitað ræðst það af því hvaða önnur mál koma inn í þingið, það er ekki mikill tími til stefnu.“

Tvö stór mál

Tvö mál standa upp úr og munu að öllu óbreyttu taka mestan tíma þingsins. Þingsályktunartillaga um stjórnarskrá er í umfjöllun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Stjórnarmeirihlutinn hyggur á að ljúka því máli svo kjósa megi um nýja stjórnarskrá samhliða alþingiskosningum í vor. Liggi þingmönnum jafn mikið á hjarta um málið og fyrir áramót verður það trauðla. Framtíð þess máls veltur því á samningum á milli flokka.

Frumvarp um fiskveiðistjórnun var lagt fram á síðasta þingi. Það var dregið til baka gegn því að frumvarp um veiðigjald yrði samþykkt. Síðan hafa ótal fundir verið haldnir þar sem reynt er að ná saman um málið. Það hefur ekki enn tekist og því er óvíst um afdrif þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×