Innlent

Deilan leysist ekki án viðbótarfjármagns

Björn Zoëga
Björn Zoëga
Landspítalinn hefur ekki bolmagn til þess að endurráða hjúkrunarfræðinga sem sagt hafa upp störfum á betri kjörum án þess að til komi viðbótarfjárframlag frá ríkinu.

Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, bendir á að spítalinn hafi síðustu ár orðið fyrir fimmtungsniðurskurði sem komið hafi niður á allri starfseminni. Blessunarlega hafi þó náðst sú nýbreytni að reka spítalann innan fjárheimilda nú þrjú ár í röð. „En það eru engir aukapeningar til,“ segir hann.

Björn segist hins vegar ekki viss um að nota orðið kjaradeila um uppsagnir hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum. „Þeir eru ekki á leiðinni í verkfall og gildur kjarasamningur í gangi. En það er töluverður fjöldi sem sagt hefur upp störfum vegna óánægju með kjörin sín. En það er ekkert að frétta af því í bili,“ segir hann. Stjórnendur spítalans hafi engu að síður miklar áhyggjur af þeirri stöðu sem upp sé komin. „Við vitum ekki almennilega hvernig við sem stofnun eigum að leysa þetta. Greinilegt er að það þarf fé til þess að fólkið vilji koma hér aftur til starfa. En það höfum við ekki og þurfum að sækja annars staðar eins og margoft hefur verið bent á.“ Um leið segist Björn vita til þess að málið sé í skoðun innan ráðuneyta heilbrigðis- og fjármála. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×