Innlent

Stór og góð loðna við Langanes

Loðnan veiðist aðallega í flottroll enda stendur hún of djúpt fyrir nótaveiðar.
Loðnan veiðist aðallega í flottroll enda stendur hún of djúpt fyrir nótaveiðar. mynd/HB Grandi
Loðnuskipin landa nú eitt af öðru fyrstu loðnuförmunum og komu tvö skip HB Granda, Faxi RE og Ingunn AK, til Vopnafjarðar í gærmorgun með rúmlega tvö þúsund tonn. Fékkst sá afli aðallega í flottroll á togsvæðinu norður af Langanesi.

Að sögn Alberts Sveinssonar, skipstjóra á Faxa RE, er loðnan stór og falleg og svo til átulaus. Vandinn er hins vegar sá að utan togveiðisvæðisins stendur loðnan það djúpt að mjög erfitt er að ná henni í nót, eins og kemur fram í viðtali við Albert á heimasíðu HB Granda.

Töluverður fjöldi skipa er nú á veiðisvæðinu og Albert segir að flest hafi skipin sennilega verið sautján talsins og því nokkur þröng á þingi. Grænlenska skipið Erika kom á miðin í nótt, en það skip er útbúið til nótaveiða. Áhöfnin reyndi fyrir sér með nótina í nótt en Albert var ekki kunnugt um árangurinn þegar rætt var við hann. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×