Innlent

Fórnarlömb nauðgana taka frekar áhættu á meðgöngu

Sunna skrifar
Fórnarlömb nauðgana eru líklegri en aðrar verðandi mæður til að stunda áhættuhegðun á meðgöngu. Þær konur sem hafa leitað til Neyðarmóttöku Landspítalans (LSH) vegna kynferðisofbeldis eru líklegri til að reykja, vera of þungar og nota ólöglega vímugjafa á meðan þær eru ófrískar, en slíkt er oft fylgikvilli áfallastreituröskunar, þunglyndis og kvíða.

Þetta eru niðurstöður rannsóknar Agnesar Gísladóttur, doktorsnema í Lýðheilsufræðum við Háskóla Íslands. Agnes og samstarfsfólk hennar öfluðu gagna frá Neyðarmóttöku LSH um þúsund konur sem leitað höfðu til spítalans vegna kynferðisofbeldis á árunum 1993 til 2008 og fæddu barn eftir ofbeldið til apríl 2011. Afar fá börn, ef einhver, voru getin við nauðgunina. Til samanburðar voru um 1.700 konur valdar af handahófi, sem fæddu barn á sama tímabili en höfðu ekki leitað til Neyðarmóttökunnar.

Rannsóknin, Áhættuþættir og heilsa á meðgöngu hjá mæðrum sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi, er doktorsverkefni Agnesar. Þessir áhrifaþættir hafa aldrei verið skoðaðir áður svo vitað sé, en flestar erlendar rannsóknir skoða áhrif kynferðisofbeldis á unga þolendur. Þessi rannsókn nær til kvenna frá aldrinum þrettán ára og upp úr.

„Hér á landi er líka einstakt tækifæri til að taka saman gögn og vinna úr þeim án þess að hafa samband við konurnar og valda þeim þannig óþægindum," segir Agnes. Hún bendir á að kynferðisofbeldi hafi oft og tíðum langvarandi áhrif á heilsu brotaþola og markmið rannsóknarinnar sé að skoða hvort mæðrum sem urðu fyrir kynferðisofbeldi á unglings- eða fullorðinsaldri sé hættara við að vera með áhættuþætti eða lakari heilsu á meðgöngu síðar á lífsleiðinni, samanborið við mæður sem ekki höfðu orðið fyrir slíku ofbeldi.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar á stóru málþingi um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum í Háskóla Íslands í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×