Innlent

Stofna ráðherranefnd um málefni norðurslóða

Samúel Karl Ólason skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. Mynd/Valgarð
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson flutti í dag lokaerindi á ráðstefnu um þróun orkumála á norðurslóðum, Arctic Energy Summit. Þetta kemur fram á vef forsætisráðuneytisins. Ráðstefnan var haldin á Akureyri og verður haldin aftur á Íslandi árið 2017.

„Í erindi sínu ræddi forsætisráðherra meðal annars þær öru breytingar sem eiga sér stað á norðurslóðum og mikilvægi heildstæðrar nálgunar til að nýta tækifærin og takast á við þær áskoranir sem í þeim felast," segir í tilkynningunni. Hann greindi einnig frá stofnun sérstakrar ráðherranefndar um málefni norðurslóða.

Nefnd þessari er ætlað að tryggja samræmda og heildstæða hagsmunagæslu Íslands á æðstu stigum stjórnsýslunnar. Forsætisráðherra mun stýra nefndinni og utanríkisráðherra, innanríkisráðherra, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra eiga fast sæti í henni.

„Forsætisráðherra ræddi ennfremur tækifæri til auðlindanýtingar á Drekasvæðinu og samhengi mögulegs efnahagslegs ávinnings og samfélagslegrar ábyrgðar. Í þeim efnum væru í þróun hugmyndir um að setja á fót alþjóðlega viðbragðs- og björgunarmiðstöð á Íslandi. Einnig áréttaði forsætisráðherra mikilvægi sjálfbærni í orkumálum og tækifæri Íslands til nýtingar  og þekkingarmiðlunar á hreinni og endurnýjanlegri orku.“

Sigmundur Davðíð sagði samstarf norðurskautsríkjanna vera farsælt og að það færi mjög vaxandi þar á meðal innan Norðurskautsráðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×