Innlent

Alvarlegt ástand í Rússlandi kallar á alvarleg viðbrögð

Valur Grettisson skrifar
Anna Pála Sverrisdóttir.
Anna Pála Sverrisdóttir. Mynd / GVA
„Mér finnst gott að borgarstjórinn hefji þessa umræðu um samskipti borganna, því Rússland er á hættulegri leið með því að brjóta á mannréttindum borgara sinna,“ segir Anna Pála Sverrisdóttir, formaður Samtakanna ´78 um tillögu Jóns Gnarr um að leitast við að endurskoða eða slíta samstarfssamningi milli Reykjavíkur og Moskvu, höfuðborgar Rússlands.

Anna Pála segir tillöguna róttæka, og samtökin óttist ekki róttæknina, „en við þurfum að skoða betur hvort þessi ákvörðun sé til hagsbóta,“ segir Anna Pála en samtökin hafa ekki tekið formlega afstöðu til tillögu Jóns sem var lögð fram á borgarráðsfundi Reykjavíkurborgar í gær.

„En þarna erum við með enn eitt dæmið um þá miklu samstöðu sem borgastjóri og borgaryfirvöld hafa sýnt málstaði samkynhneiðgra og við erum þakklát fyrir það,“ segir Anna Pála.

Hún segir þó lykilspurninguna vera hvort svona hörð afstaða sé besta leiðin til þess að leggja sitt af mörkum við að breyta því alvarlega ástandi sem ríkir í garð samkynhneigðra í Rússlandi. „Hvort það verði gert með því að setja hnefann í borðið, með því að segja hingað og ekki lengra, skal ég ekki segja,“ segir Anna Pála en bætir við að lokum:

„Hið alvarlega ástand sem er að eiga sér stað í Rússlandi kallar hinsvegar á alvarleg viðbrögð.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.