Skoðun

Nýfrjálshyggjan og fátækir

Þorleifur Gunnlaugsson skrifar
Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og leiðtogi flokksins í velferðarráði, segir í viðtali í helgarblaði Fréttablaðsins að meirihlutinn í Reykjavík hafi gert sín stærstu mistök í upphafi kjörtímabilsins, þegar ákveðið var að hækka fjárhagsaðstoð þrátt fyrir að augljóst væri að slíkt myndi draga úr fjárhagslegum hvata fólks til að fara út á vinnumarkað.

Í viðtalinu stillir Áslaug dæminu þannig upp að þeir sem þurfa að reiða sig á fjárhagsaðstoð borgarinnar séu baggi á „venjulegum“ fjölskyldum. Þetta rökstyður borgarfulltrúinn með því að draga fram meintan kostnað hverrar fjölskyldu í Reykjavík vegna fjárhagsaðstoðar sem Áslaug segir að hafi aukist um 250 prósent frá árinu 2008. „Þá hafi þessi kostnaður numið rúmum 52 þúsundum króna á ári á hverja fjölskyldu en sé kominn upp í rúmar 130 þúsund krónur.“

Ábyrgð Sjálfstæðisflokksins

Velferðarleiðtogi Sjálfstæðisflokksins í borginni nefnir það ekki að aukinn kostnaður vegna fjárhagsaðstoðar stafar ekki af hækkun bóta, heldur mikilli fjölgun fjárhagsaðstoðarþega. Þessi mikla fjölgun fólks sem neyðist til að lifa á aðstoðinni er bein afleiðing efnahagshrunsins, en þá jókst atvinnuleysi um meira en 700 prósent á örfáum mánuðum.

Hrunið skrifast fyrst og fremst á Sjálfstæðisflokkinn og í raun ætti Áslaug og aðrir fulltrúar flokksins frekar að skammast sín og biðja fórnalömbin afsökunar en að stilla upp kröfum um að tekjur þeirra verði lækkaðar enn frekar.

Lækkun fjárhagsaðstoðar

Staðreyndin er sú að frá 2008 hefur fjárhagsaðstoðin í Reykjavík lækkað að raunvirði hjá meirihluta þeirra sem hana þiggja og sennilega hjá þeim öllum.

Fyrsta verk núverandi meirihluta var að breyta reglum um fjárhagsaðstoð í Reykjavík þannig að búinn var til nýr hópur sem nefndur var „einstaklingar sem búa með öðrum“ og er fjölmennasti hópur þeirra sem njóta aðstoðarinnar, en þessi hópur var færður verulega niður í tekjum. Síðan var fjárhagsaðstoðin hækkuð til þeirra sem tilheyra efsta hópnum, en aðrir fengu ekki verðbætur það árið.

Núverandi reglur

Núverandi reglur borgarinnar um fjárhagsaðstoð eru svona:

1Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklings, 18 ára eða eldri, sem rekur eigið heimili getur numið allt að 163.635 kr. á mánuði.

(Með rekstri eigin heimilis er átt við þær aðstæður þegar viðkomandi býr í eigin húsnæði eða leigir húsnæði og leggur fram þinglýstan húsaleigusamning um húsnæðið)

2 Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til hjóna/sambúðarfólks getur numið allt að 245.453 kr. á mánuði.

3 Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklings sem býr með öðrum (leigir húsnæði án þinglýsts leigusamnings eða hefur ekki aðgang að húsnæði) er 137.871 kr. á mánuði.

4 Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklings sem býr hjá foreldrum er 81.818 kr. Hafi einstaklingur, sem fellur undir framangreint, forsjá barns, skal viðkomandi reiknuð grunnfjárhæð sem nemur 137.871 kr. á mánuði.

Hópur 3, sem áður tilheyrði hópi 1 og er eins og áður sagði stærsti hópurinn, hefur dregist verulega aftur úr og reyndar var reglum einnig breytt þannig að einstæðir foreldrar sem búa hjá foreldrum sínum voru færðir úr hópi 1 í hóp 3.

Kaldrifjuð nýfrjálshyggja

Þessar tekjur, sem eru langt undir fátækramörkum, verða þeir sem neyðast til að lifa á fjárhagsaðstoð að láta sér duga, jafnvel árum saman. Ef marka má Áslaugu Friðriksdóttur verða bæturnar lækkaðar enn frekar og nú með það að markmiði að neyða fólk til að sætta sig við allt of lág laun, nái Sjálfstæðismenn völdum Í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×