Lífið

Missti tæp fimmtíu kíló með hjálp Facebook

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Þvílíkur munur
Daníel hefur lést um 46,8 kíló á 46 vikum.Myndir/Einkasafn
Þvílíkur munur Daníel hefur lést um 46,8 kíló á 46 vikum.Myndir/Einkasafn
Daníel Páll Jónasson fór nýstárlegar leiðir í heilsuátaki sem hann fór í fyrr á árinu. Hann notaði Facebook til að hjálpa sér og keypti sér ekki líkamsræktarkort til þess að breyta um lífsstíl. Daníel hefur nú lést um 46,8 kíló og hefur einnig létt mikið á sér andlega.

„Ég notaði Facebook sem aðhald. Ég setti inn myndir af mér vikulega og var í keppni um að vera léttari í hverri viku, svo árangurinn myndi sjást. Ég ákvað að vera ekki með öfgakennt mataræði, ég tók í raun enga sérstaka fæðutegund út, bara minnkaði skammtana og borðaði hægar,“ útskýrir Daníel. Daníel segist hafa notað afar náttúrulegar leiðir.

„Ég notaði ekki neinar brennslutöflur eða fæðubótarefni. Ég borðaði bara venjulega fæðu en passaði upp á hitaeiningafjölda og kynnti mér næringarinnihald mjög vel.“ Daníel hefur oft reynt að fara í átak en aldrei gengið eins vel og nú.

„Ég var kominn með kæfisvefn og þetta var farið að hafa ýmiss konar sálræna og líkamlega kvilla. Ég var í raun búinn að ná botninum. Þegar líkamlegt ástand hamlar svefni er stutt í andlega erfiðleika.“

„Ég var kominn með kvíða og leið ekki vel. Ég þurfti einfaldlega að taka mig á. Ég hafði ekki um neitt annað að velja og eftir átakið eru þessir kvillar algjörlega á bak og burt.“ Hann valdi að fara sínar eigin leiðir í átakinu.“

„Ég vildi ekki vera bundinn við að fara í líkamsræktarstöðvar í ákveðna tíma og vera bundinn þannig. Ég ákvað því að fara í mikið af gönguferðum. Ég tók strætó í vinnuna og gekk alltaf heim og um helgar fór ég í langa göngutúra sem gerðu mikið fyrir líkama og sál. Ég byrjaði að ganga því ég gat ekki hlaupið, ég var búinn að rústa öðru hnénu vegna ofþyngdar.“ 

Daníel finnur skiljanlega mikinn mun á sjálfum sér, enda tæplega fimmtíu kílóum léttari. 

Af stað hlunkur Daníel líður mun betur í dag en fyrir 46 vikum.
„Ég er farinn að geta stundað útivist, hlaupið og farið á rjúpnaveiðar. Ég er farinn að geta gert hluti sem ég gat ekki gert áður. Tilfinningin er alveg hreint frábær.“ Hann segir að fólk þurfi að finna það hjá sjálfu sér hvað virkar fyrir það, vilji það grennast. 

„Ef ég ætti að ráðleggja fólki eitthvað þá er það að borða einfaldlega minna og minnka skammtana, borða hægar og vakta árangurinn vel. Lítil smáatriði eins og að missa nokkur kíló eða geta þrengt beltið geta skipt miklu máli í að styrkja mann í svona átaki. Ég leyfði mér alveg helling en hreyfði mig mikið í staðinn.“ Hann segir lífið ekki alltaf hafa verið auðvelt á meðan á átakinu stóð. 

„Þetta var erfitt, ekki spurning. Svona átaki fylgja skapsveiflur. En þetta var svo sannarlega þess virði.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.