Innlent

Ný stórbrú í stað þeirrar sem Katla skolaði burt

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hafin er smíði nýrrar brúar yfir Múlakvísl á Mýrdalssandi, í stað þeirrar sem Kötluhlaup sópaði burt af hringveginum fyrir tveimur árum. Áætlað er að verkið kosti alls um níuhundruð milljónir króna.

Það var snemma júlímánaðar árið 2011, á háannatíma sumarsins, sem óvænt hlaup úr Kötlu sópaði brúnni burt og rauf hringveginn skammt austan Víkur í Mýrdal. Trukkar og rútur stóðu í því dagana á eftir að ferja fólk og bíla yfir, meðan menn réðu ráðum sínum, en svo var drifið í því að smíða einbreiða bráðabirgðabrú og tók smíði hennar aðeins eina viku.

En nú er komið að því að reisa varanlegra mannvirki, smiðir eru byrjaðir á slá upp fyrir nýjum brúarstöplum og steypubílarnir farnir á aka á vinnusvæðið með steypuna. Vegagerðin samdi við Þjótanda um að leggja sex kílómetra langa varnargarða að brúnni fyrir 220 milljónir króna og við Eykt um að smíða brúna fyrir 470 milljónir króna.

Átta brúarsmiðir eru mættir til starfa en Guðbjartur Hafsteinsson, verkstjóri hjá Eykt, segir í fréttum Stöðvar 2 að þeim fjölgi þegar smíði brúargólfsins hefst og verða þeir þá um tuttugu talsins.

Nýja brúin rís um 300 metrum austar en sú gamla og myndband vegagerðarinnar sýnir hvernig hún kemur til með að líta út en hún verður um 160 metra löng. Verklok eru áætluð í lok ágústmánaðar á næsta ári en menn vonast þó til að geta opnað brúna fyrr og helst fyrir næsta sumar, að sögn Guðbjarts.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×