Skoðun

Í upphafi skólaárs

Guðmundur S. Johnsen skrifar
Á hverju ári komast hundruð foreldra hér á landi að því að börn þeirra eiga við lestrarerfiðleika að etja. Í sumum tilvikum kemur í ljós að um lesblindu (dyslexia) er að ræða. Sem gefur að skilja er það nokkuð áfall fyrir foreldra sem átta sig á að þetta hefur veruleg áhrif á framtíð barna þeirra. Í framhaldinu velta þeir fyrir sér hvernig skólagöngu þeirra verður háttað. Hvers er að vænta, getur skólakerfið tryggt lesblindum börnum þá menntun sem öðrum börnum stendur til boða? Því miður er alvarlegur misbrestur á því og það verða foreldrar fljótlega varir við þegar þeir fara að skoða þá aðstoð sem skólakerfið býður upp á.

Reglulega hringja áhyggjufullir foreldrar á skrifstofu okkar hjá Félagi lesblindra og vilja fá að vita hvaða úrræði standa til boða og hvernig hægt er að bregðast við. Í sumum tilvikum þurfa þeir að fá aðstoð við að meðtaka þessa staðreynd sem vissulega getur haft talsverð áhrif á framtíð barna þeirra.

Enn í mestu vandræðum

Þótt ýmislegt hafi áunnist á skólakerfið enn í mestu vandræðum með að sinna þörfum þessa hóps. Hætt er við að önnur vandamál skyggi á þarfir lesblindra en nú er talið að um 30% grunnskólanema séu í sérkennslu og um helmingur þeirra sé án formlegrar greiningar. Hvernig ætlar skólakerfið að taka á þessum málum og tryggja um leið réttindi þeirra sem eiga við lestrarerfiðleika og lesblindu að eiga? Stefnumörkun grunnskólalaganna (nr. 63/1974) í sérkennslumálum var skýr. Þeir nemendur sem vegna fötlunar sinnar geta ekki notið venjulegrar kennslu eiga rétt á sérstakri kennslu við sitt hæfi. Í sérkennslu felst að það eru sett önnur markmið, ólíkt námsefni, umgjörð og aðferðir.

Nýta má nýja tækni

Félag lesblindra telur að úr þessari sérkennsluþörf megi leysa með því að nýta nýja tækni. Þess vegna hefur félagið margoft bent á möguleika þess að hafa skóla án bóka. Þótt lesblinda hafi verið undangengnum kynslóðum erfið er ekkert sem segir að hún þurfi að vera það fyrir komandi kynslóðir. Með betri skilningi, bættum greiningaraðferðum en þó ekki síst nýrri tækni ætti að vera auðvelt að búa til skóla án bóka. Í nútímaþjóðfélagi ætti mismunun þegar kemur að texta að vera óþörf. Í dag finnast tæki sem duga til að yfirvinna þá fötlun sem lesblindir glíma við. Það höfum við hjá Félagi lesblindra margoft bent á en skólakerfið þarf að vakna til lífsins.




Skoðun

Sjá meira


×