Innlent

Fjúkandi reiður yfir arðgreiðslum útgerðaryfirtækja

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Dagur er ekki sáttur með arðgreiðslur útgerðarfélaga.
Dagur er ekki sáttur með arðgreiðslur útgerðarfélaga. Mynd/Samsett
Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, er sleginn yfir þeim upphæðum sem eigendur útgerðarfyrirtækja landsins greiða sér í arð um þessar mundir. Nýverið gáfu Samherji og Síldarvinnslan út ársreikninga sína og er samanlagður hagnaður fyrirtækjanna tveggja um 25 milljarðar króna.

„Á kvöldin eru haldnir fundir um vanda Landspítalans, niðurskurð á kostnað námsmanna hjá LÍN og mikilvægi þess að jafna launamun kynjanna. Þetta kallar á hundruði milljóna. Á daginn ákveða svo stærstu og stóryrtustu sjávarútvegsfyrirtækin að greiða eigendum sínum (en ekki eigendum auðlindarinnnar) milljarða á milljarða ofan í arð. Ég er alla jafna talsmaður þess að fyrirtæki græði og greiði eðlilegan arð. En nú er ég fjúkandi. Fyrir þá 10 milljarða sem veiðigjaldið var lækkað hefði verið hægt að lyfta grettistaki í því að koma fjársveltum stofnunum og skólum út úr kreppunni, hefja margsháttar framkvæmdir og fylla þjóðina af von. Ég sakna þess sárt að jafnaðarstefnan sé ekki við völd,“ skrifar Dagur á Facebook-síðu sína í dag.

Síldarvinnslan hagnaðist um 7 milljarða á síðasta starfsári og greiddi eigendum sínum tvo milljarða í arðgreiðslur. Veiðigjald fyrirtækisins var 850 milljónir króna á síðasta ári. Árskýrsla fyrirtækisins var kynnt í gær. Samherji skilaði hagnaði upp á 16 milljarða á síðasta starfsári. Fyrirtækið borgarði 1,4 milljarða í veiðigjald. Hagnaður Samherja tvöfaldaðist á milli ára.

Alþingi samþykkti í sumar lög um lækkun veiðigjalds. Það hefur í för með sér að tekjur ríkissjóðs af veiðgjöldum fyrir aflaheimildir verða 3,2 milljörðum kr.- lægri á árinu 2013 en upphaflega var gert ráð fyrir í fjárlögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×