Innlent

Nýr stjórnarsáttmáli mjög framsóknarlegur

Helga Arnardóttir skrifar

Nýr stjórnarsáttmáli er þjóðlegri og ber meiri keim af eldri hugmyndafræði Framsóknarflokksins en Sjálfstæðisflokksins að mati sagnfræðings.  Stjórnarsáttmáli síðustu ríkisstjórnar hafi verið með ítarlegri og útfærðari verkefnalista en sáttmáli nýrrar ríkisstjórnar.

Stjórnarandstaðan gagnrýndi stjórnarsáttmála ríkistjórnarinnar í gær og sagði hann frekar almennt orðaðan og lítið væri um útfærslur. Sáttmálinn telur tíu blaðsíður en stjórnarsáttmáli síðustu ríkisstjórnar taldi 17 blaðsíður og var sá lengsti sem sést hafði. Ragnheiður Kristjánsdóttir aðjúnkt í sagnfræði við Háskóla Íslands segir sáttmálann frá 2009 hafa verið ólíkan sáttmálum fyrri ríkisstjórna sem hefðu verið styttri og frekar almennt orðaðir. 

„Þar er sett fram frekar markviss samstarfsáætlun eða verkefnaáætlun í rauninni og ber merki þess að vera svona langur tossalisti ríkistjórnarinnar sem hún síðan held ég hafi farið markvisst eftir út kjörtímabilið. Það er mjög óvenjulegt og hefur ekki verið áður,“ segir Ragnheiður Kristjánsdóttir, aðjúnkt í sagnfræði við Háskóla Íslands.

Nýr stjórnarsáttmáli sé hins vegar í takt við eldri sáttmála. 

„Plaggið sem við  fengum að sjá í gær er ítarlegt. Það er lengra heldur en fyrri stjórnarsáttmálar en hins vegar ber það ekki alveg merki þess  að vera verkefnaáætlun í sama skilningi  og plaggið frá 2009. Það er svona minna um nákvæmlega tilgreindar  aðgerðir sem á að ráðast í á einhverjum tilteknum tíma,“ segir hún.

Nokkur atriði séu þó afgerandi í nýjum sáttmála og það er til dæmis að afturkalla umdeildar  ákvarðanir síðustu ríkisstjórnar eins og aðildarviðræður og veiðigjaldið. Nýr stjórnarsáttmáli sé einnig ólíkur þeim frá 2009 í hugmyndafræði og áherslum.

„Allavega framan af plagginu þar sem meira er um almennt orðalag, þá finnst mér þetta vera mjög  Framsóknarlegur sáttmáli.  Mér finnst ég ekki sjá svona stefnu Sjálfstæðisflokksins jafn skýrt og stefnu Framsóknarflokksins. Í raun og veru  eru þetta svona frekar gamaldags gildi  sem er lagt upp með,“ segir Ragnheiður og tekur sem dæmi setningar  á borð við: Íslensk þjóðmenning verður í hávegum höfð - Áhersla verður lögð á málvernd, vernd sögulegra minja og skráningu Íslandssögunnar. Aukin verður virðing fyrir merkri sögu landsins, menningu og tungumálinu.

„Það er svona meira í ætt við það sem maður sá hjá stjórnmálamönnum  á tuttugustu öldinni  og jafnvel dálítið langt aftur á tuttugustu öldinni. Mér finnst þessi  Framsóknarflokkur sem  þarna talar ekki minna á rödd Halldórs Ásgrímssonar en þá var Framsóknarflokkurinn meiri frjálshyggjuflokkur og lagði áherslu á erlent samstarf  við Evrópu og svo framvegis. Þetta er frekar eldri Framsóknarflokkur sem talar núna,“ bætir hún við.

Þá finnst Ragnheiði athyglisvert að á fyrstu blaðsíðu stjórnarsáttmálans sé minnst á  ungmennafélög og mikilvægi þeirra sem ekki oft hafi verið minnst á í stjórnarsáttmálum. Nánar tiltekið segir í stjórnarsáttmálanum:  Æskilegt er að stjórnvöld viðurkenni í auknum mæli í verki mikilvægi samtaka á borð við hjálparsveitir, ungmennafélög, íþróttafélög, forvarna- og hjálparsamtök og önnur frjáls félagasamtök sem efla og bæta íslenskt samfélag.

„Mér finnst það benda á ímynd Framsóknarflokksins sem þeir virðast vera að tengja við miklu meira núna en áður því í upphafi tuttugustu aldar þegar Framsóknarflokkurinn var stofnaður var hann mjög tengdur ungmennafélagshreyfingunni."

Ragnheiður segir það einnig hafa komið skýrt fram þegar Héraðsskólinn að Laugarvatni var valinn til að kynna stjórnarsáttmálann en Jónas frá Hriflu einn helsti forkólfur Framsóknarflokksins beitti sér fyrir byggingu skólans á sínum tíma. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×