Innlent

Tilskipunin enn þá í gildi í ESB

Þorgils Jónsson skrifar
Talsmaður Michel Barnier, framkvæmdastjóra málefna innri markaðar ESB, segir að tilskipun um innstæðutryggingar sé enn í fullu gildi í ESB-ríkjum þrátt fyrir úrskurðinn í Icesave-málinu. Fréttablaðið/ap
Talsmaður Michel Barnier, framkvæmdastjóra málefna innri markaðar ESB, segir að tilskipun um innstæðutryggingar sé enn í fullu gildi í ESB-ríkjum þrátt fyrir úrskurðinn í Icesave-málinu. Fréttablaðið/ap
Framkvæmdastjórn málefna innri markaðar hjá ESB telur tilskipun sambandsins um innstæðutryggingar í fullu gildi gagnvart aðildarríkjum ESB, þrátt fyrir Icesave-dóminn. Þetta segir í tilkynningu frá talsmanni Michel Barnier framkvæmdastjóra.

Málið var af mörgum álitið prófsteinn á innistæðutryggingakerfi ESB. De Rynck segir að einhvern tíma gæti tekið að meta heildaráhrif dómsins, en í rökum sínum með umsókn um að fá meðalgöngu í málinu bar framkvæmdastjórnin við mikilvægi málsins til að viðhalda trausti á innstæðutryggingakerfinu.

„Framkvæmdastjórnin stendur við túlkun sína á núverandi innstæðutryggingakerfi innan ESB. Innstæðutryggingar hjá hinum 27 aðildarríkjum eiga einnig við ef kerfishrun á sér stað," segir hann.

Aðildarríkin eru, samkvæmt skilningi framkvæmdastjórnarinnar, því bundin því að tryggja innstæður allt að 100.000 evrum. Nú stendur yfir endurskoðun til eflingar innstæðutryggingakerfinu.

Þá fagnar framkvæmdastjórnin þeirri yfirlýsingu íslenskra stjórnvalda að greiðslur úr þrotabúi Landsbanka til kröfuhafa muni halda áfram „og að Icesave-kröfurnar verði að fullu greiddar af hinum raunverulega skuldara, þrotabúi Landsbankans".




Fleiri fréttir

Sjá meira


×