Innlent

Handbolti verður sýnd á Cannes

Mundi og Vigfús við frumsýningu myndarinnar í Bíó Paradís.
Mundi og Vigfús við frumsýningu myndarinnar í Bíó Paradís.
„Ég er bara ótrúlega ánægður, það er bara heiður að komast þangað,“ segir kvikmyndagerðarmaðurinn Vigfús Þormar Gunnarsson en stuttmynd hans og útskriftarverkefnið, Handbolti, verður sýnd á stuttmyndahátíð Cannes í Frakklandi í maí. Það var fatahönnuðurinn Mundi sem leikstýrði myndinni en Vigfús leikur aðalhlutverkið og framleiðir.

Stuttmyndahátíðin er hluti af Cannes hátíðinni frægu og snýst að miklu leytinu til um það að ungir kvikmyndagerðamenn gera stuttmyndir eða stiklur og reyna svo að koma á fundi með framleiðendum og selja hugmyndir sínar áfram.

Vigfús er raunar ekki viss hvort hann fari á hátíðina. „En ég veit að Mundi er spenntur,“ segir hann en Mundi er búsettur í Berlín í Þýskalandi.

Myndin fjallar um ungan handboltamann sem er góður í sínu fagi. „En hann á sér dekkri hlið sem tekur hann og áhorfandann í súrrealískt ferðalag,“ útskýrir Vigfús. Myndin er sú fyrsta sem Vigfús gerir en aðspurður hvaða einkun hann fékk fyrir hana í kvikmyndaskóla Íslands verður hann vandræðalegur og svarar, „hún var ekkert sérstaklega góð, enda skilaði ég henni frekar grófklipptri. Við unnum svo í henni í heilt ár á eftir og ég held að ég myndi nú fá hærri einkun fyrir hana í dag.“

Vigfús og Mundi eru ekki einu íslensku kvikmyndagerðamennirnir sem verða á Cannes, en Vísir greindi frá því í dag að framleiðandinn Þórir Snær Sigurjónsson verður þar einnig. Hann framleiddi kvikmyndina Only God Forgives eftir Nicholas Winding Refn, en sú mynd mun keppa um Gullpálmann á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Í aðalhlutverkum eru þau Ryan Gosling og Kristin Scott Thomas.

Hægt er að horfa á stiklu úr myndinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×