Innlent

Pútín og Kerry ánægðir með framvindu mála í Sýrlandi

Þorgils Jónsson skrifar
John Kerry og Vladimír Pútín funduðu á ráðstefnu Kyrrahafsríkjanna sem haldin var í Indónesíu.
John Kerry og Vladimír Pútín funduðu á ráðstefnu Kyrrahafsríkjanna sem haldin var í Indónesíu. NordicPhotos/AFP
Stjórnvöld í Rússlandi og Bandaríkjunum eru einhuga um hvernig eigi að eyða efnavopnum í Sýrlandi. Þetta sagði Vladimír Pútín Rússlandsforseti eftir fund sem hann átti með John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í morgun.

„Við erum sama sinnis um hvað þurfi að gera og hvernig það verði gert. Ég er mjög ánægður með þá afstöðu sem Obama hefur tekið í þessu máli," sagði Pútín, en hann og Kerry voru staddir í Indónesíu á fundi Kyrrahafsríkja um efnahagsmál.



Alþjóðlegt sérfræðingateymi hefur þegar hafið störf í Sýrlandi við að gera grein fyrir og eyða efnavopnum Assad-stjórnarinnar, í samræmi við samkomulag sem gert var í síðasta mánuði.



Kerry hrósaði einnig yfirvöldum í Sýrlandi fyrir að hafa brugðist hratt við og sagði allt hafa gengið að óskum hingað til þrátt fyrir að erfitt væri að spá fyrir um framhaldið. Vonast er til þess að í næsta mánuði verði haldin ráðstefna þar sem reynt verði að semja um frið í borgarastyrjöldinni í Sýrlandi sem kostað hefur á annað hundrað þúsunda mannslífa síðustu rúm tvö árin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×