Innlent

Yndisleg jól með kertum og spilum

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Á myndinni má sjá Gunnar Hnefil sitja við kerti og spil.
Á myndinni má sjá Gunnar Hnefil sitja við kerti og spil. mynd/Örlygur Hnefill Örlygsson
„Rafmagnið fór af öllum bæjunum hérna í kring,“ segir Örlygur Hnefill Örlygsson, hótelstjóri á Húsavík, sem hélt upp á jólin ásamt fjölskyldu sinni fyrir norðan á Laugum í Reykjadal. Þar fór rafmangið um átta leytið og kom ekki aftur fyrr en á miðnætti. Sökum óveðurs fór rafmagn af á nokkrum stöðum á landinu í gær.

Þau voru fimm við jólahaldið á Laugum í gær, Örlygur, móðir hans Valgerður Gunnarsdóttir þingkona,faðir hans Örlygur Hnefill Jónsson lögmaður, amma hans Emilía Sigurjónsdóttir og Gunnar Hnefill bróðir Örlygs. Þau hafa oft verið fleiri saman á aðfangadagskvöld en vegna veðurs komust ekki allir á staðinn.

Emilía og Valgerður höfðu það huggulegt í rafmagnsleysinu.mynd/Örlygur Hnefill Örlygsson
„Rafmagnið fór af um það leyti sem við vorum að klára að borða þannig að pakkarnir voru teknir upp við kertaljós,“ segir Örlygur.

Upp úr einum pakkanum kom svo spil og fjölskyldan spilaði saman við kertaljós. „Þetta voru alveg ekta jól og það var alveg yndislegt að losna við tölvurnar og sjónvarpið í nokkra klukkutíma.“

Rafmagnseysið segir Örlygur að hafi gert jólin einstaklega notaleg og þegar rafmagnið kom á aftur um miðnætti og ljósin kviknuðu urðu engin sérstök fagnaðarlæti.

„Þetta eru bestu jólin frá því að ég var barn og þetta er eitthvað sem menn muna eftir, að halda hátíð ljóssins í myrkri,“ segir Örlygur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×