Lífið

Eggjastokkum líkt við rotnuð epli

Ugla Egilsdóttir skrifar
Helga Kristín eignaðist barn 39 ára gömul og fékk á tilfinninguna að hún væri of gömul.
Helga Kristín eignaðist barn 39 ára gömul og fékk á tilfinninguna að hún væri of gömul. Fréttablaðið/Einkasafn
„Þegar fjallað er um eldri mæður er eins og verið sé að gefa í skyn að þær séu afbrigðilegar,“ segir Helga Kristín Hallgrímsdóttir, dósent í félagsfræði. Hún heldur fyrirlesturinn Þekking er vald: Áhætta og siðferðisleg ábyrgð verðandi mæðra í sögulegu ljósi á Háskólatorgi í dag frá 12 til 13.

„Í félagsfræðilegu og læknisfræðilegu samhengi er talað um áhættu. Áhætta þýðir að maður eigi að taka ábyrgð á því sem maður gerir og að maður eigi ekki að gera hluti sem hafa fyrirsjáanlegar hættulegar afleiðingar. Ég eignaðist barn þegar ég var 39 ára og þá fékk ég á tilfinninguna að ég væri of gömul. Það vakti forvitni mína á því hvaðan þetta hugtak „eldri móðir“ kemur, því það er tiltölulega ný hugmynd. Langömmur okkar tvínónuðu ekkert við barneignir þótt þær væru orðnar 35 ára. Mér þótti snjallt að skoða eldri umræðu um þetta.“

Í þessari rannsókn skoðaði Helga Kristín tímabilið 1880-1920 í Kanada. „Á þessu

tímabili hætti læknisfræði að einskorðast við meðhöndlun sjúkra og læknar fóru að hugsa um bæði veikt fólk og fólk sem var ekki enn orðið veikt. Þarna breytist hugsunin um meðgöngu. Þá var byrjað að meðhöndla hana sem eitthvað sem var hugsanlega sjúklegt. Hlutverk konunnar var að koma í veg fyrir þessa hugsanlega sjúklegu hluti sem gátu gerst.“

Gögnin sem Helga Kristín notar eru bæklingar sem voru búnir til af læknum fyrir konur að lesa og birtir í Kanada. Í þessum bæklingum fá konur ráð um hvernig þær eiga að koma í veg fyrir sjúklega atburði á meðgöngunni sem þær báru siðferðislega ábyrgð á. Þau atriði sem einkenndu siðferðislega ábyrga hegðun á meðgöngu voru ekki endilega þau sömu nú og þá.

„Ég fann ekkert um of háan aldur kvenna í þessum gögnum. Þegar talað var um aldur var talað um að of ungar konur áttu ekki að eignast börn og það var líka ekki gott ef faðirinn var of gamall. Nú til dags er lítið talað um aldur feðra. Kynferði kvenna var oft líkt við ávexti, þegar konur urðu til dæmis 46 ára var eggjastokkunum líkt við rotnuð epli. En samt þótti ekkert slæmt að eiga barnið þótt þú værir komin á þann aldur. Ef þú varst enn þá frjó var allt í lagi að eiga barn.“

Konum var uppálagt að sýna ábyrgð í makavali. „Ef þú giftist manni sem var lélegur til andlegrar heilsu og svo dó hann, en svo áttirðu börn með öðrum manni sem var betri, þá var talið að fyrra hjónabandið hefði varanleg áhrif á æxlunarfærin og það skilaði sér í börnunum sem þú áttir með seinni manninum þótt hann væri gott eintak. Það má setja þetta í samhengi við að á þessum tíma í Norður-Ameríku var mikill áhugi á kynbótum í Bandaríkjunum og þarna höfðu konur það hlutverk að búa til góða þegna með því að gifta sig rétt. Þetta er nokkurs konar tilraun til kynbóta.“

Helga Kristín bendir einnig á að á þessum tíma höfðu konur ekki kosningarétt.

„Konur voru gerðar ábyrgar þegar þær höfðu ekkert vald sjálfar. Konur notuðu þessa ábyrgð sína á meðgöngunni til þess að fá kosningarétt, til þess að biðja um meiri þátttöku. Svo hefur meðganga líka verið notuð til að stuðla að sjálfstæðisleysi. Þá er gefið í skyn að þótt þú getir orðið ófrísk þá getirðu ekki endilega orðið móðir. Einhver sérfræðingur þarf að kenna þér að vera móðir. Ábyrgð kvenna á meðgöngu hefur því bæði stuðlað að sjálfstæði kvenna og sjálfstæðisleysi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.