Innlent

„Líknardeild er ekki endastöð“

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Arndís Jónsdóttir er sérfræðingur í líknarhjúkrun á líknardeild Landspítalans.
Arndís Jónsdóttir er sérfræðingur í líknarhjúkrun á líknardeild Landspítalans.
„Líknarmeðferð er ekki eingöngu fyrir þá sem eru deyjandi,“ segir Arndís Jónsdóttir, sérfræðingur í líknarhjúkrun á Landspítala og fyrirlesari á ráðstefnu um líknarmeðferð sem haldin verður í dag á Alþjóðadegi líknarþjónustu. „Það er alls staðar verið að líkna fólki í heilbrigðiskerfinu. Líknarmeðferð hefur það markmið að bæta lífsgæði sjúklinga með lífsógnandi, langvinna og erfiða sjúkdóma og eiga samtal og samvinnu við sjúklinginn og fjölskyldu hans.“

Yfirskrift ráðstefnunnar er „Staðhæfingar sem standast ekki“ en Arndís segir að fólk hafi oft þröngt sjónarhorn á líknarmeðferðir og starfsemi líknardeildar Landspítalans.

„Líknardeildin er ekki endilega endastöð sjúklinga. Á líknardeild er veitt heildræn umönnun; andleg, líkamleg og félagsleg. Margir koma á líknardeild í styttri tíma og fara svo aftur heim ef þeir treysta sér til þess,“ segir Arndís.

Hún segir meirihluta sjúklinga Landspítalans vera með langvinna sjúkdóma. Með líknandi meðferð er reynt að hjálpa þessum sjúklingum í gegnum fjölmarga þætti og þar á meðal samræður um líðan, væntingar og þarfir.

Ráðstefnan er á Grand hóteli og hefst klukkan tvö í dag. Öllum er heimill aðgangur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×