Innlent

Óska eftir 30 þúsund lífssýnum

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Kári Stefánsson
Kári Stefánsson Fréttablaðið/GVA
„Við erum nú með allt of lítið af upplýsingum og lífssýnum úr einstaklingum sem eru tiltölulega ungir. Við þurfum því fleiri sýni og stefnum að því að fá 30 þúsund nýja þátttakendur,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

Síðastliðin sautján ár hefur fyrirtækið unnið að því að leita að stökkbreytingum í erfðavísum sem valda sjúkdómum. Kári segir að um 120 þúsund Íslendingar hafi þegar tekið þátt í rannsóknum Íslenskrar erfðagreiningar en að staðan sé nú orðin þannig að þessir einstaklingar séu orðnir heldur gamlir.

„Þeir sjúkdómar sem við erum að einbeita okkur aðallega að, eru sjúkdómar sem byrja seint á ævinni. Þegar við vinnum okkar rannsóknir þá þurfum við að bera saman breytileikann í fólki sem er með sjúkdómana annars vegar og viðmiðunarhópinn hins vegar, þá sem ekki eru með sjúkdóma. Við þurfum að fá fleira ungt fólk svo hægt sé að bera þetta saman,“ segir Kári.

Í dag býður Íslensk erfðagreining alla velkomna á opið hús á milli kl. 10 og 17 og lofar Kári miklu stuði.

„Við munum leiða fólk í gegnum húsakynni okkar og halda nokkra fyrirlestra og reyna að sannfæra fólk um að taka þátt í rannsóknunum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×