Innlent

"Þetta er góður dagur"

Boði Logason í Hæstarétti skrifar
Ólafur Vignir og Sveinn Andri fyrir utan Hæstarétt í dag.
Ólafur Vignir og Sveinn Andri fyrir utan Hæstarétt í dag. Mynd/Boði
“Þetta segir okkur það að Visa, eða kortafyrirtækin, geta ekki tekið sér neitt alræðisvald um það hverjir megi stunda viðskipti,” segir Ólafur Vignir Sigurvinsson, stofnandi Datacell.

Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að Valitor þarf að opna greiðslugátt fyrir Datacell og WikiLeaks. Stærstu kortafyrirtæki heims, Visa og Mastercard, skipuðu þjónustuaðilum sínum að loka á alla þjónustu fyrirtækja sem taka á móti greiðslu fyrir WikiLeaks, fyrir tveimur og hálfu ári.

Datacell þjónustar WikiLeaks hér á landi og stefndi fyrirtækið, ásamt Wikileaks, Valitor vegna lokunarinnar.

Ólafur Vignir segist vera sáttur. “Ég hlýt að vera það, þetta er það sem við vissum allan tímann; að við værum ekki að brjóta nein lög. Vonandi getum við haldið áfram að stunda viðskipti. “

Hann segir að dómurinn geti verið fordæmisgefandi í öðrum löndum. “Þetta er ekki bara sigur fyrir okkur, heldur almennt fyrir fjármagnsflæði í landinu. Við erum ennþá með sambærileg mál fyrir dómstólum bæði í Danmörku og Sviss.”

Sveinn Andri Sveinsson lögmaður flutti málið fyrir Datacell.

“Þetta er sú niðurstaða sem maður átti einna helst von á, héraðsdómur var vel rökstuddur og Hæstiréttur var með enn lengri rökstuðning í málinu. Þetta er bara einn góður sigur í baráttunni gegn þessari efnahagslegu ritskoðun sem hefur átt sér stað af hálfu kortafyrirtækjanna. Þetta er mikill og gleðilegur áfangi, þetta er góður dagur.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×