Skoðun

Geðheilsustöð Breiðholts; nýleg nærþjónusta

Lúðvíg Lárusson skrifar
Í tengslum við alþjóða geðheilbrigðisdaginn sem var í október er tilvalið að kynna úrræði á vegum Reykjavíkurborgar fyrir fullorðna sem greindir eru með geðraskanir. Geðheilsustöð Breiðholts var stofnuð 2012 og er samvinnuverkefni Heimaþjónustu Reykjavíkur og Þjónustumiðstöðvar Breiðholts.

Þessu fyrirkomulagi er ætlað að að auðvelda og auka samvinnu þessara tveggja stofnana ásamt því að veita heildræna þjónustu í nærumhverfinu. Geðheilsustöðin er einnig samstarfi við geðsvið Landspítalans, aðrar stofnanir og samtök sem koma að þjónustu og stuðningi við einstaklinga með geðraskanir.

Við Geðheilsustöð Breiðholts er starfandi geðteymi sem sinnir þeim einstaklingum sem þurfa langtímaþjónustu og eftirfylgni hvort sem það er með viðtölum, heimavitjunum, eftirliti með lyfjagjöf eða fræðslu. Geðteymið sinnir einnig þjónustu til íbúa í Árbæ, Grafarvogi og Grafarholti.

Geðheilsustöðin veitir almenningi ráðgjöf og fræðslu, með því að hafa opinn ráðgjafasíma fjórum sinnum í viku. Í ráðgjafasímann getur hver sem er hringt undir nafnleynd og óskað eftir leiðbeiningu um lausn mála eða fengið upplýsingar um þau úrræði sem í boði eru í þjóðfélaginu. Geðheilsustöðin heldur fræðslu fyrir almenning þrisvar á ári í samvinnu við notendasamtökin Hugarafl. Fræðsla verður í sal félagsstarfsemi Árskóga þar sem fjallað verður um hvernig hægt sé að bæta geðheilsu sína og annarra.

Þverfaglegur hópur fagfólks vinnur innan Geðheilsustöðvarinnar og vinnur starfsfólkið eftir batahugmyndafræði (recovery). Með batahugmyndafræðinni er unnið með valdeflingu þar sem m.a er að unnið með notendum í að taka aukna ábyrgð á eigin bata, heilsu og velferð.

Notendum er hjálpað til að byggja upp betri sjálfsmynd og aukna vitund um eigið vald og val í lífinu. Í batastýrðri þjónustu er gjarnan nýtt persónuleg reynslu þeirra sem hafa náð bata af geðröskunum. Á Geðheilsustöðinni er unnið að innleiðingu á batahugmyndafræðinni í samvinnu við geðsvið Landspítalans og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Starfsemi Geðheilsustöðvarinnar er tilraunaverkefni til þriggja ára og verður gerð gæðaúttekt á starfseminni við lok verkefnisins. Þá verður horft til mikilvægi þess að stofna sambærilega geðheilsustöð í öðrum borgarhlutum.




Skoðun

Sjá meira


×