Lífið

Tom Cruise segist ekki hafa yfirgefið Suri

Tom Cruise ásamt dóttur sinni, Suri
Tom Cruise ásamt dóttur sinni, Suri AFP/NordicPhotos
Tom Cruise viðheldur nánu sambandi við dóttur sína, Suri, þrátt fyrir skilnaðinn frá Katie Holmes, móður Suri og þétta dagskrá vegna vinnu sinnar, segir leikarinn í dómskjölum til stuðnings máls sem hann hefur höfðað gegn útgáfurfyrirtæki slúðurtímaritanna Bauer Publishing Co vestanhafs.

Cruise skilaði inn tveggja blaðsíðna lýsingu á sambandi sínu við Suri Cruise á þriðjudaginn í máli sínu gegn Bauer Publishing Co. Leikarinn er að stefna Bauer vegna blaðagreina sem sögðu Cruise hafa „yfirgefið“ dóttur sína. Greinarnar, sem birtust í Life & Style og In Touch Magazine sögðu Cruise eyða litlum sem engum tíma með dóttur sinni sökum anna í vinnu.

„Ég hef á engan hátt tekið Suri út úr mínu lífi - líkamlega, tilfinningalega, fjárhagslega, eða á nokkurn annan hátt,“ skrifar Cruise. Hann segir að þrátt fyrir mikið annríki seinni hluta síðasta árs hafi hann talað við dóttur sína á nánast hverjum degi, og fengið fregnir af henni í gegnum móður Suri, leikkonuna Katie Holmes.

Lögfræðingar Tom Cruise biðla til dómara að skipa Bauer útgáfufyrirtækinu að engar heimildir hafi verið fyrir þeim upplýsingum sem birtust í greinum í ofangreindum tímaritum.

Lögfræðingar útgáfufyrirtækisins segja á móti að réttast væri að dómari myndi vísa kröfunni frá. Lögfræðingar Bauer segjast ennfremur hafa gögn undir höndum sem sýni svart á hvítu yfirlýsingar frá heimildamönnum þar sem þeir segja Cruise hafa misst af fyrsta skóladegi Suri og að hann hafi verið fullfær um að fljúga til New York frá tökustað, til þess að hitta stúlkuna.

Cruise stefndi útgáfufyrirtækinu Bauer Publishing Co í október 2012. Lögfræðingur Cruise, Bert Fields, hefur sagt opinberlega að greinarnar um að Cruise hafi yfirgefið Suri séu „helber lygi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.