Innlent

Harðari viðurlög með nýjum dýravelferðarlögum

Alþingi samþykkti ný lög um velferð dýra á síðasta starfsdegi sínum á miðvikudaginn og hafa þau þegar tekið gildi. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra fer með yfirstjórn mála er varða velferð dýra en framkvæmd stjórnsýslunnar er að öðru leyti í höndum Matvælastofnunar.

Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir kom að gerð laganna. Hún segir margt í þeim vera til mikilla bóta fyrir dýrin og líka fyrir eftirlitsaðila, öll vinna verði skilvirkari. Sigurborg segir að eitt af því sem verður skilvirkara séu sektirnar. Með nýju lögunum verði einfaldlega hægt að sekta í þeim tilvikum sem um ítrekuð brot er að ræða og nefnir hún sem dæmi styttingu rófu á grísum án deyfingar sem er bannað.

Sektirnar geta numið allt að milljón en Matvælastofnun er heimilt að ákveða hærri sektir, allt upp í fimm milljónir, hafi verið hagnaður af broti. Sigurborg telur að sektarákvæðið geta gagnast vel því ekki borgi sig að greiða svo háar sektir ef búskapurinn á að skila arðsemi. Þá sé líka ákvæði í lögunum sem hægt er að nota við ítrekuðum brotum sem ekki er bætt úr en það er að skerða ríkisbændur til bænda en þá er aðallega verið að tala um sauðfjár- og nautgripabúskap.

Sigurborg segir fólk almennt fara vel með dýr og hún trúi ekki öðru en að þeir sem geri það ekki vilji bæta sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×