Innlent

Slitastjórnir hunsa Jóhönnu

Jóhanna Sigurðardóttir
Jóhanna Sigurðardóttir
Tilraunir Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra til að upplýsa um laun fjölmargra slitastjórna hafa engan árangur borið. Svo virðist sem krafa hennar um upplýsingarnar hafi verið hunsuð með öllu.

Guðlaugur Þ. Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, spurði forsætisráðherra um það á Alþingi 8. mars hverju það sætti að henni hefðu ekki borist upplýsingar um launakjör þrettán slitastjórna, en eftir upplýsingunum var leitað fyrst fyrir átján mánuðum.

Eins og frægt er voru þau Guðlaugur og Jóhanna sammála um mikilvægi málsins og hét ráðherra því að ganga eftir upplýsingunum þann sama dag. Sem hún og gerði, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Jóhanna hefur í ræðu og riti lýst því yfir að laun slitastjórna ofbjóði henni. Á það við um upplýst laun slitastjórnar Glitnis sem skiptu hundruðum milljóna, eins og Fréttablaðið greindi frá í september 2012.

Jóhanna mun hafa rekið erindið í gegnum Katrínu Júlíusdóttur fjármálaráðherra, sem óskaði eftir upplýsingunum frá Seðlabankanum, en eignarhaldsfélag hans á kröfur á öll búin. Þar stendur málið; slitastjórnirnar hækjast við að senda SÍ upplýsingarnar, þótt einhverjar þeirra hafi orðið við beiðninni eða upplýst um launin á öðrum vettvangi, til dæmis á kröfuhafafundum. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×