Skoðun

Við þurfum fjölbreyttari kennsluaðferðir

Stefán Ólafur Stefánsson skrifar
Sem nemandi í Háskóla Íslands sem útskrifast núna á haustönn, hef ég að undanförnu verið að velta fyrir mér gæðum þessa náms sem ég hef nú lokið. Ég velti því fyrir mér hver gæði menntunnar minnar séu, allt frá því að skólaganga mín hófst til dagsins í dag. Einnig velti ég fyrir mér hver stefna ráðamanna í menntamálum sé. Ljóst þykir mér að þó ég hafi lært ýmislegt gagnlegt í gegnum tíðina og að aukin menntun tryggi mér betri atvinnumöguleika, er ýmislegt sem ég sakna úr minni skólagöngu og sem ég hef oftar en ekki, lært utan skólastofunnar. Efni sem að ég tel að ætti að fá aukið rými í námskrám skólanna.

Uppi hafa verið hugmyndir um að stytta grunn- og framhaldsskólanám. Ef til þess kæmi, þyrftu nemendur væntanlega að fara yfir meira efni á skemmri tíma eða lengja þyrfti skólaárið. Gagnrýnisraddir benda á að lítill sem enginn tími gæfist þá fyrir tómstundir ungmennanna utan skóla og námsálag á nemendur myndi aukast til muna. Færa má rök fyrir því að einstaklingur sem er í mikilli mótun á barna- og unglingsárum fái þá ekki sömu tækifæri og nú til að þroskast í félagslegu umhverfi þar sem jafningjahópurinn skiptir sköpum.

Þrátt fyrir að ég fagna því að hugað sé að breytingum á menntakerfi okkar, sem ég tel vera meingallað og hreinlega úrelt tel ég að þær hugmyndir sem nú eru upp á borðum séu illa ígrundaðar og ekki til þess fallnar að viðhalda, eða því sem ég tel mikilvægara, að auka við gæði menntunar hér á landi. Fjölbreyttari kennsluaðferðir þar sem tekið er tillit til mismunandi einstaklinga, er að mínu mati eðlilegri breyting. Í núverandi skólakerfi byggir allt nám frá grunnskóla upp í háskóla, á því að öll erum við sett undir sama hatt. Allir eru steyptir í sama form og nemendur þurfa að laga sig að ríkjandi kerfi í stað þess að skólakerfið lagi sig að ólíkum einstaklingum með mismunandi styrkleika.

Áherslan í grunnskólanum er að miklu leyti lögð á bóknám, á kostnað verknáms, þar sem allt kapp er lagt á að koma nemendum í gegnum samræmd próf. Í framhaldsskóla og háskóla er svo sama sagan þar sem öll áhersla er lögð á að ná ákveðnum prófum þar sem dagamunur einstaklings getur ráðið því hvort hann falli í áfanga eða ekki og þurfi að byrja að nýju.

Fyrir nokkru ákvað Harvard, einn virtasti háskóli heims, að afnema lokapróf. Haft var eftir Jonathan Zimmerman, prófessor í menntunarfræði og sagnfræði, að lokapróf væru „forn og að öllu jöfnu umdeild leið til lærdóms, sem leggur að jöfnu þekkingu og upptalningu staðreynda. Hinn raunverulegi lærdómur væri hins vegar að læra að setja fram skoðun sem studd er með staðreyndum. Skólinn væri ekki að sýna kæruleysi með ákvörðuninni, heldur þvert á móti að greiða leiðina fyrir ögrandi og krefjandi námsreynslu“. Heimspekingurinn og menntunarfræðingurinn John Dewey lagði áherslu á virkt leitarnám og að með athöfnun okkar í daglegu lífi söfnuðum við reynslu. Hlutverk skólanáms væri því að stuðla að og efla þessa virkni.

Fyrir mér felst mun meira í hugtakinu „menntun“ en að öðlast einhverja ákveðna gráðu eða réttindi. Menntun þarf að stuðla að alhliða þroska manneskjunnar og auka mikilvæg gildi svo sem siðverðisvitund einstaklingsins, sjálfstæða hugsun og frumkvæði. Með aukinni áherslu á hópavinnu og umræðutíma í skólakerfinu þar sem reynsla hvers nemenda og mismunandi upplifun eru höfð að leiðarljósi, skapast sameiginleg þverfagleg reynsla sem nýtist betur þegar komið er út á vinnumarkaðinn.

- Ég vil ekki lengur fyrirlestra þar sem nemendur eru mataðir með upplýsingum í stað þess að vera virkir þátttakendur.

- Ég vil endurskoða hugmyndir um hefðbundnar ritgerðir og að nemendur séu hvattir til að skila vangaveltum sínum á mismunandi formi.

- Ég vil að notast sé við náttúruna í meiri mæli í kennslu þar sem börn og ungmenni fá að þreifa, lykta og upplifa umhverfi sitt í stað þess að lesa aðeins um það í bókum.

- Ég vil að list- og iðngreinum sé gert hærra undir höfði og að sköpunarkraftur einstaklingsins sé virkjaður.

- Ég vil að heimspeki sé kennd í skyldunámi þar sem nemendur þurfa sífellt að hugsa út fyrir rammann.

- Ég vil aukna áherslu á starfsmenntun til að undirbúa nemendur sem best fyrir vinnumarkaðinn.

- Ég vil fyrst og fremst að skólakerfið stuðli að áhuga og forvitni nemenda til að kynna sér hin ýmsu viðfangsefni en með því sköpum við okkar eigin þekkingu.

Ljóst er að menntun er forsenda fyrir uppbyggingu í nútímasamfélagi en hún þarf þó að miða að því að ná því besta út úr hverjum og einum einstakling. Því þannig skapast sem mestur mannauður.






Skoðun

Sjá meira


×