Innlent

Ekki allir sammála um hver var fyrstur á topp Everest

Jóhannes Stefánsson skrifar
Sir Edmund Hillary ásamt konu sinni og George Mallory
Sir Edmund Hillary ásamt konu sinni og George Mallory Mynd/ AFP

Eins og kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2 eru Sir Edmund Hillary og Tenzing Norgay af flestum álitnir fyrstu mennirnir til að stíga fæti á topp Everest fjalls árið 1953.

Það eru þó ekki allir sammála um þetta því sumir halda því fram að enski fjallgöngumaðurinn George Mallory hafi verið fyrri til tæpum 30 árum á undan, eða árið 1924. Mallory lést á göngunni en ekki er vitað hvort hann hafi verið á upp- eða niðurleið þegar það gerðist, en hann mun hafa hrasað og dáið eftir fall í hlíðum fjallsins.

Ýmsar kenningar á lofti um göngu Mallory

Það hefur aldrei fengist staðfest hvort Mallory dó á leiðinni upp eða niður fjallið en til stuðnings kenningunni um að hann hafi verið fyrstur á toppinn hefur tvennu helst verið teflt til:

Að sögn dóttur Mallory hugðist hann skilja eftir mynd af konu sinni, sem hann hafði meðferðis, á toppi Everest. Myndin var ekki á líki Mallory sem fannst árið 1999, þrátt fyrir að líkið sjálft, klæðnaður hans og ýmsir pappírar sem voru í veski hans hafi allt varðveist mjög vel. Sumir segja þetta renna stoðum undir það að hann hafi í raun náð á toppinn, skilið myndina eftir og farist á leið niður af fjallinu.

Þá fundust snjógleraugu Mallory í úlpuvasa hans sem bendir til þess að hann og annar sem kleif fjallið með honum hafi náð á toppinn um daginn og verið á leið niður eftir sólsetur. Þetta rennir frekari stoðum undir það að Mallory hafi verið á niðurleið þegar hann lést vegna þess að annar fjallgöngumaður hafði nokkrum dögum fyrr fengið alvarlega snjóblindu vegna þess að hann hafði gleraugun ekki á sér að degi til. Því þykir ólíklegt að Mallory hafi afráðið að hafa gleraugun fyrir augunum að degi til þegar hann var á leiðinni á tindinn. Sumir telja þetta sanna að hann hafi dáið eftir að hafa náð á toppinn um daginn og tekið þau niður þegar tók að dimma.

Eins og fyrr segir hefur þó ekkert fengist staðfest í þessum efnum og er því einungis um vangaveltur að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×