Innlent

Viðsnúningur á fáeinum mánuðum í viðhorfi til unglingadrykkju

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar

Ný rannsókn á vímuefnaneyslu ungmenna sýnir að grundvallarbreyting verður á viðhorfi foreldra til áfengisneyslu barna sinna þegar þau byrja í menntaskóla.

Grundvallarbreyting verður á viðhorfi foreldra til alvarleika áfengisneyslu meðal unglinga í efsta bekk grunnskóla annars vegar og sömu unglinga á fyrsta ári í framhaldsskóla hins vegar. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu þar sem rýnt er vímuefnamál í öllum framhaldsskólum landsins. Kjartan Hreinn Njálsson.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í væntanlegri skýrslu frá Rannsóknum og greiningu, við Háskólann í Reykjavík. Hér er ljósi varpað á vímuefnanotkun framhaldsskólanema frá aldamótum til ársins 2013.

Ljóst er að öflugt forvarnarstarf í efstu bekkjum grunnskólanna hefur borið árangur. Vímuefnaneysla ungmenna hér á landi er með því lægsta sem þekkist í hinum vestræna heimi. Niðurstöðurnar eru þó ekki allar jafn jákvæðar, þá sérstaklega þegar litið er á viðhorf foreldra til reykinga og ölvunar.

Nemendur í tíunda bekk voru spurðir hver viðbrögð foreldra þeirra yrðu ef þau myndu reykja sígarettur annars vegar og drekka áfengi hins vegar. Nokkrum mánuðum seinna voru þessir nemendur spurðir sömu spurninga aftur, þegar framhaldsskólanám þeirra var nýhafið.

Áttatíu og þrjú prósent unglinga í tíunda bekk segja að foreldar þeirra myndu bregðast illa við ef þau myndu reykja. Sú prósenta stóð í sjötíu og þremur þegar framhaldsskólanám var hafið.

Hins vegar segjast hátt í sjötíu prósent unglinga að vori í tíunda bekk að foreldrar þeirra myndu bregðast afar illa við ef þau myndu neyta áfengis. Aðeins þrjátíu og fjögur prósent unglinga svara því þannig til, aðeins nokkrum mánuðum síðar.

Það er því hægt að draga þá ályktun að ungmenni í framhaldsskólum séu að ná góðum árangri í vímuefnamálum, í andstöðu við þær aðstæður sem þau búa við eða í það minnsta ekki með stuðningi umhverfisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×