Innlent

Skýrsluskilin aldrei tímasett

Stígur Helgason skrifar
Skýrslan verður svipuð að vöxtum og skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um stóru bankana þrjá.
Skýrslan verður svipuð að vöxtum og skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um stóru bankana þrjá.
Skilin á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um sparisjóðina hafa aldrei verið tímasett og því er villandi að tala um að þeim hafi verið frestað á fundi með forsætisnefnd Alþingis í þarsíðustu viku. Þetta segir Hrannar Már S. Hafberg, formaður nefndarinnar.

Á fundinum kom fram að nefndin hygðist skila skýrslu sinni í kringum mánaðamótin nóvember-desember. Í frétt Fréttablaðsins af málinu í síðustu viku kom fram að skilunum hefði ítrekað verið frestað, og bent á að upphaflega hafi nefndinni verið markaðir níu mánuðir til verksins. Í nóvemberlok muni hún hins vegar hafa starfað í 27 mánuði.

Hrannar áréttar það sem fram kom hjá þingforsetanum Einari K. Guðfinnssyni að verkefnið hafi undið mjög upp á sig og reynst mun viðameira en að var stefnt í upphafi. Þá hafði það einnig áhrif að skipt var um formann í nefndinni í miðju kafi fyrir réttu ári.

Hrannar segir rannsóknarvinnuna sjálfa meira og minna búna og því hafi nefndin treyst sér til að segja nokkurn veginn til um hvenær skýrsluskrifum gæti lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×