Innlent

Bein útsending - Fær Baltasar Óskarstilnefningu?

Í dag klukkan 13.30 verða tilnefningar til Óskarsverðlaunanna kynntar. Hægt er að fylgjast með tilnefningunum í beinni útsendingu hér á Vísi, með því að smella á hnappinn hér fyrir ofan.

Íslendingar fylgjast náið með enda var gefinn út listi fyrir um mánuði síðan þar sem kom fram að Djúpið eftir Baltasar Kormák er ein af þeim níu myndum sem koma til greina í flokknum Besta erlenda myndin. Þeim hefur í millitíðinni verið fækkað niður í þær fimm sem hljóta tilnefninguna í dag.

Aldrei hafa fleiri myndir komið til greina í flokknum Besta erlenda myndin en 71 mynd barst í keppnina nú í ár.

Tvær íslenskar kvikmyndir hafa hlotið þann heiður að vera tilnefndar til Óskarsverðlauna, Börn Náttúrunnar í leikstjórn Friðriks Þórs Friðrikssonar og stuttmyndin Síðasti bærinn eftir Rúnar Rúnarsson.

Nokkrar myndir eru annars oftast nefndar sem þær líklegustu til að hljóta flestar tilnefningar til verðlaunanna. Þeirra á meðal eru Lincoln, Les Miserables, Zero Dark Thirty, Argo og Silver Linings Playbook.

Óskarsverðlaunahátíðin fer fram 24. febrúar í Dolby-höllinni í Los Angeles. Grínistinn Seth MacFarlane, höfundur Family Guy-þáttanna, verður kynnir hátíðarinnar. Hann mun sjá um að tilkynna tilnefningarnar í dag ásamt leikkonunni Emmu Stone.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×