Innlent

Fá ekki bætt tapið á almenningssímum

Afar fáir símaklefar eru til í dag, enda hefur almenningssímum fækkað mjög á síðustu árum. Síminn fær ekki bætt meint tap af rekstri slíkra síma í alþjónustu.
Afar fáir símaklefar eru til í dag, enda hefur almenningssímum fækkað mjög á síðustu árum. Síminn fær ekki bætt meint tap af rekstri slíkra síma í alþjónustu. FRéttablaðið/VAlli
Póst- og fjarskiptastofnun hefur hafnað 40 milljóna króna kröfu Símans um framlag úr sjóði vegna taps á rekstri almenningssíma í alþjónustu. Forsvarsmenn Símans eru ósáttir við niðurstöðuna og íhuga að fara lengra með málið.

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur hafnað kröfu Símans um 40 milljóna króna framlag úr Jöfnunarsjóði alþjónustu vegna reksturs almenningssíma á árunum 2007 til 2011. Sjóðurinn er starfræktur til að jafna kostnað vegna alþjónustukvaða, en með því er átt við þjónustu sem skal standa landsmönnum til boða óháð búsetu, þar á meðal að starfrækja almenningssíma um land allt.

Í umsókn Símans segir að tap á rekstri almenningssíma í alþjónustu hafi numið rúmum 40 milljónum króna á tímabilinu. Það sé „ósanngjörn byrði“ með vísan til fjarskiptalaga og sjóðnum bæri því skylda til þess að bæta tapið.

PFS hafnar hins vegar umsókn Símans með þeim rökum að meint tap hafi ekki verið af þeirri stærðargráðu að um sé að ræða „ósanngjarna byrði“. Tap Símans vegna reksturs almenningssíma borið saman við afkomu fyrirtækisins á talsímasviði og það væri óverulegt í því sambandi.

Þá hafi Síminn meðal annars getað gripið til ýmissa ráðstafana til að bregðast við tapinu. Meðal annars hafi verið heimilt að loka mörgum þeim almenningssímum sem tap var á og hækka gjaldskrá. Sú stóð í stað fyrir almenningssíma á umræddu árabili á meðan gjaldskrá fyrirtækisins í talsímakerfinu hækkaði mikið.

Almenningssímum á Íslandi hefur fækkað mikið síðustu ár, með aukinni farsímaeign landsmanna og eru nú 127 talsins. Á vef PFS segir að öll rök standi til þess að fækka símum undir alþjónustu. Alþjónusta Símans hefur verið framlengd út þetta ár, en um leið boðar PFS samráð um hvort ástæða sé til að viðhalda núverandi kvöð til alþjónustu.

Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, segir niðurstöðuna ekki í samræmi við fjarskiptalög að þeirra mati og fyrirtækið velti nú fyrir sér hvort farið verði lengra með málið. Um sé að ræða umtalsverða fjárhæð sem hafi þýðingu fyrir hvaða fyrirtæki sem er. Varðandi það að taka almenningssíma inn með talsímakerfinu, segir hún það vera í andstöðu við fyrri áherslur PFS um að hver þjónusta Símans standi undir sér.

„Niðurgreiðsla talsíma á almenningssímum væri væntanlega í andstöðu við það sjónarmið,“ segir hún. Varðandi framhaldið segir Gunnhildur að í ljósi niðurstöðunnar muni Síminn íhuga að gera kröfu um að PFS aflétti kvöðum til Símans um rekstur almenningssíma. thorgils@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×