Innlent

Engin merki um flúor í beinum

Bilun í búnaði olli tímabundinni flúormengun í nágrenni álversins.
Bilun í búnaði olli tímabundinni flúormengun í nágrenni álversins. fréttablaðið/valli
Engin merki eru um flúoreitrun í grasbítum í Reyðarfirði þrátt fyrir flúormengun í grasi í sumar í kjölfar bilunar í mengunarvarnarbúnaði Fjarðaáls. Þetta er niðurstaða rannsóknar dýralækna á beinsýnum grasbíta.

Samkvæmt upplýsingum fyrirtækisins sýnir skýrsla dýralækna um skoðun á beinsýnum úr ellefu kindum frá bænum Sléttu að tennur og kjálkabein beri engin merki um flúoreitrun. Þó var flúor í beinum yfir þúsund míkrógrömm á hvert gramm af beinösku og sýndi rannsóknin jafnframt fram á að meðalstyrkur flúors hefur aukist frá árinu 2006, áður en Fjarðaál hóf framleiðslu.

Eftir að starfsmenn Fjarðaáls urðu bilunarinnar varir var Náttúrustofu Austurlands og fleirum falið að kanna áhrif mengunarinnar á heyfeng og grasbíta í firðinum. Sú rannsókn sýndi að flúor í heysýnum var undir mörkum í 15 sýnum af 17.

Skömmu fyrir áramót bárust síðan niðurstöður dýralæknis úr sjónrænni skoðun á þrjátíu grasbítum á svæðinu. Samkvæmt skýrslu hans bendir ekkert til að þeir hafi orðið fyrir flúoreitrun af völdum þessarar tímabundnu flúoraukningar í útblæstri frá Fjarðaáli. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×