Innlent

Vonast eftir yfirvegaðri umræðu um kynferðisbrotamál

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gunnar Hansson leikari er einn þeirra sem hefur tekið þátt í umfjölluninni um brot Karls Vignis.
Gunnar Hansson leikari er einn þeirra sem hefur tekið þátt í umfjölluninni um brot Karls Vignis.
„Það sem ég vona bara innilega er að þessi umræða sem hefur komið upp á þessum þremur dögum skili því að við sem samfélag getum farið að takast á við þetta," segir Gunnar Hansson leikari. Hann er einn þeirra sem hefur, í samtali við Kastljósið á RÚV, lýst brotum Karls Vignis Þorsteinssonar gegn sér. Um fátt hefur verið meira rætt í þessari viku en þá umfjöllun og kynferðisbrot Karls Vignis. „Viðbrögðin hafa verið ótrúleg, mjög jákvæð og mikill stuðningur til okkar sem höfum komið fram, en svo líka gríðarlega sterk í samfélaginu öllu. Kannski helst til sterk á köflum, sem er samt auðvitað mjög skiljanlegt þar sem þetta er stórt og erfitt mál." segir Gunnar í samtali við Vísi.

Gunnar hefur áhyggjur af því að samfélagið komist ekki nógu langt í að takast á við umræðu af þessu tagi. „Það þarf að fara í grunninn á þessu, hvernig við getum tekist á við þetta. Það fer rosalega mikil orka í reiðina sem blossar upp, í því að kalla þessa menn skrímsli eða að þeir séu af hinu illa. Aftur segi ég að ég skil þessi viðbrögð, en ég hræðist þau líka. Ég sé veika einstaklinga sem þarf að koma af þessari braut," segir Gunnar. Fyrst og fremst þurfi þó að vernda börnin. „Ég er ekki með neina töfralausn, en ég vona að við náum að komast í einhverja átt fyrir börnin til þess að koma í veg fyrir að svona lagað komi fyrir aftur. Við þurfum að láta okkur aðeins renna reiðin og skoða þessi mál af yfirvegun," segir Gunnar. „Þetta eru svo hrikaleg og erfið mál að við þurfum að komast eitthvað lengra, eitthvað áfram" bætir hann við.

Gunnar segist þó ekki vilja vera með neina dóma um það hvernig umræðan hafi verið. Hann endurtekur að honum finnist reiðin skiljanleg. „En ég hræðist hana líka. Reiðin er ekkert rosalega gott afl til að byggja á neinu eða til að komast eitthvað áfram. Hún er bara eins og sprengipúður sem springur út í loftið," segir hann. Ástæðan fyrir því að hann hafi tekið þátt í umræðunni um brot Karls Vignis sé sú að hann vilji ræða málin af yfirvegun. Menn eins og Karl Vignir hafi komist upp með brot sín vegna þöggunar, sem mun ekki geta átt sér stað í framtíðinni ef við höldum rétt á spilunum núna.

„Ég er ekkert rosalega refsiglaður. Mér er miklu meira í mun að koma í veg fyrir að þetta komi fyrir aftur," segir hann. Það þurfi að taka á málum gagnvart þolendum. „Að þeir þori að koma fram með hluti sem þessa og þeim verði hjálpað," segir hann. Einnig að tekið verði á málum gerenda. „Þá er ég ekki að meina að það eigi að hengja þá upp á torgum. Í mínum augum eru þetta bara sjúkir einstaklingar sem þarf að takast á við. Við erum samfélag og við þurfum að takast á við það," segir Gunnar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×