Lífið

Langar að búa til Magga Mix-app næst

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Yfir hundrað þúsund manns hafa sótt eitt app Jóns Arnars Jónssonar forritara.
Yfir hundrað þúsund manns hafa sótt eitt app Jóns Arnars Jónssonar forritara. mynd/Úr einkasafni
„Ég fékk mikinn áhuga á að búa til öpp í fyrra,“ segir Jón Arnar Jónsson forritari sem hefur búið til nokkur öpp undanfarið. Fyrir skömmu bjó hann til app sem kallast Best Minecraft Soundboard en það hefur verið sótt yfir hundrað þúsund sinnum.

„Ég bjó til þetta app með börnunum mínum, þau hafa gaman af þessum leik og finnst tónlistin skemmtileg,“ útskýrir Jón Arnar. Fyrsta appið sem hann bjó til hét Indriði og var það vinsælt hér á landi og hefur verið sótt yfir ellefu þúsund sinnum. „Indriði er náttúrulega frábær karakter í Fóstbræðrum sem ég held mikið upp á. Ég tók eitt matarhlé í að smíða það app,“ útskýrir Jón Arnar sem fékk mjög góð viðbrögð við appinu.

Aðspurður um hversu mikil vinna sé að búa til app segir hann það vera misjafnt en það taki kannski tvær til þrjár kvöldstundir fyrir mann sem kann eitthvað í forritun. „Það er líka mikið af efni á Youtube sem getur hjálpað til.“

Öppin sem hann hefur gert eru fáanleg á Google Play Store. „Þetta er fyrir alþjóðamarkað en rúmlega sextíu prósent af þeim sem hafa sótt Minecraft-appið eru í Bandaríkjunum.“

Þeir sem búa til vinsæl öpp geta fengið ágætis tekjur þannig að það er til mikils að vinna í þessum geira.

Jón Arnar langar að búa til fleiri öpp. „Mig langar að búa til Magga Mix-app, þar sem hægt er að finna „pick up“-línurnar hans, uppskriftir og annað slíkt. Mig langar að gera það fyrir næstu verslunarmannahelgi, því það er gott að hafa Mixarann í vasanum þá,“ bætir Jón Arnar við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.