Innlent

Kennarar undirbúi komu spjaldtölvanna

Þorgils Jónsson skrifar
Hagaskóli
Hagaskóli
Undirbúningur kennara ræður því hvort spjaldtölvuvæðing í skólum heppnast. Í greinargerð um möguleika spjaldtölvunotkun í grunnskólum Reykjavíkur segir að tæknin sem slík skipti ekki mestu, heldur hvernig bæta megi skólastarf.

Í vangaveltum um notkun spjaldtölva í skólum skiptir mestu máli að einblína ekki á tækin eða tæknina, heldur hvernig megi nýta tæknina til að bæta skólastarf. Það sem ræður því hvort innleiðing spjaldtölva heppnast eða ekki er hvort kennarar séu tilbúnir í verkefnið.

Einnig er líklegt að hlutverk kennarans komi til með að breytast með tilkomu nýrrar tækni og aðferða, frá því að miðla þekkingu til nemenda í að leiðbeina nemendum í vinnu sinni og skapa þeim sem bestar aðstæður til náms.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í greinargerð sem Ómar Örn Magnússon, aðstoðarskólastjóri Hagaskóla, gerði fyrir skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar.

„Sumar af þeim hugmyndum sem komu upp voru góðar en aðrar voru hins vegar ekki nógu skýrar varðandi hverju átti að ná fram með nýrri tækni. Markmiðið með þessari úttekt var að velta upp hvað ætti að gera í þessum málum, hvernig ætti að gera það og í hvaða skrefum."

Í skýrslunni segir meðal annars að tími sé til kominn að marka stefnu um að setja upp þráðlaust net í öllum leik- og grunnskólum borgarinnar. Þegar því hefur verið náð fram megi bjóða þeim sem nú þegar eiga spjaldtölvur eða snjalltæki að nota þau í námi og kennslu. Það geti verið fyrsta skrefið í átt að spjaldtölvuvæðingu í skólastarfi.

Oddný Sturludóttir, formaður Skóla- og frístundaráðs, segist ánægð með úttektina. Mikilvægast sé að innleiðing nýrra tækja verði nýtt sem tækifæri til skólaþróunar og til að bæta gæði náms.

„Við eigum að nýta snjalltæki og upplýsingatækni yfirleitt til að efla hæfni nemenda til samvinnu og sjálfstæðra vinnubragða. Við vildum gjarnan geta endurnýjað tölvukostinn hraðar en teljum okkur þó geta tekið mörg jákvæð skref á næstunni. Nýverið styrktum við til dæmis fjölbreytt verkefni tengd upplýsingatækni úr þróunarsjóði ráðsins og áhugi kennara er mikill. Þaðan á líka frumkvæðið að koma, úr grasrótinni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×