Innlent

Fimm hælisleitendamál kærð á mánuði

Myndin tengist fréttinni ekki.
Myndin tengist fréttinni ekki.
Fjörutíu og eitt mál er varðar hælisleitendur sem hafa reynt að laumast um borð í skip sem sigla héðan til Ameríku hefur verið kært til lögreglu síðustu átta mánuði. Þetta gerir að meðaltali rúmlega fimm mál á mánuði. Sum brotanna varða kærur á hendur sömu einstaklingunum sem hafa gert ítrekaðar tilraunir til að gerast laumufarþegar.

Þetta kemur fram í svari Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur þingkonu um málefni hælisleitenda. Spurning Vigdísar var í átta liðum en hún vildi meðal annars fá að vita hvort einhver eftirmál hefðu orðið í „alþjóðaflugsamfélaginu varðandi Keflavíkurflugvöll þegar tveir hælisleitendur komust óséðir um borð í flugvél fram hjá öllum öryggisþáttum".

Í svari Ögmundar segir að engin eftirmál hafi orðið önnur en þau að ein fyrirspurn hafi borist frá fulltrúa flugmálayfirvalda í Bandaríkjunum vegna málsins. Síðasti liður spurningar Vigdísar veltir því upp hvort ráðherra hafi skoðað þann möguleika að hælisleitendur sem framið hafa húsbrot hjá skipafélögunum beri ökklabönd sem sýni staðsetningu þeirra.

Ögmundur bendir á að ekki sé leyfilegt að nota rafrænt eftirlit nema gæsluvarðhald sé fyrir hendi eða viðkomandi að ljúka fangelsisvist. Þá bendir hann á að ráðherra taki ekki ákvörðun um rafrænt eftirlit heldur aðeins dómstólar eða Fangelsismálastofnun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×