Innlent

Mælist til þess að vegurinn verði endurskoðaður

Mynd úr safni
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra mælist til þess að bæjaryfirvöld í Garðabæ og Vegagerðin meti forsendur nýs Álftanesvegar upp á nýtt.

Það segist hann gera vegna fjölda áskorana sem honum hafi borist, en töluverð gagnrýni hefur komið fram að undanförnu á umfang hins nýja vegar í Gálgahrauninu.

En skipulagsvaldið hvíli hjá Garðabæ varðandi þessa vegagerð, sem gert hafi verið ráð fyrir í samgönguáætlun Alþingis og fjármagn liggi fyrir til framkvæmdanna.

„Við eigum alltaf að vera tilbúin að taka allar ákvarðanir til endurskoðunar og ég verð að segja það yfirvöldum í Garðabæ til hróss að það hafa þau jafnan verið tilbúin að gera,“ segir Ögmundur.

Hann segist hafa átt marga fundi með bæjaryfirvöldum í Garðabæ um vegaframkvæmdirnar og þau hafi ávallt verið reiðubúin til að skoða málin, og reiknar með að þau taki jákvætt í þessa málaleitan.

„Þegar að eindregin beiðni kemur frá málsvörum náttúruverndar finnst mér það skylda, og mjög ljúf skylda, að hlusta á þær raddir.“

Ögmundur mælist til þess að verksamningur verði ekki undirritaður á meðan athugun á umfangi vegarins fer fram. Hann reiknar einnig með að vegamálastjóri bregðist vel við þessari málaleitan eins og öðrum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×