Innlent

Alþingi hefur veitt 242 ríkisborgararétt

Þorgils skrifar
Alþingi veitti 39 einstaklingum íslenskan ríkisborgararétt með lögum sem sett voru fyrir jólafrí. Alls hafa 242 frá 60 löndum fengið ríkisborgararétt í gegnum lög frá Alþingi á þessu kjörtímabili. Alþingismaður fagnar nýjum borgurum, en segir þó ástæðu til þess að taka lög um ríkisborgararétt til endurskoðunar.

Alls sóttu 73 einstaklingar um ríkisborgararétt til Alþingis á haustþingi, en eins og fyrr sagði fengu 39 sitt í gegn að þessu sinni. Hópurinn kemur víða að þar sem einstaklingarnir eru fæddir í nítján löndum, þar af einn á Íslandi, sem fær ríkisborgararétt á ný.

Stærsti hópurinn, þrettán manns, er þó fæddur í Kólumbíu og kom hingað til lands sem flóttamenn á árunum 2005 og 2007.

Næst koma einstaklingar frá Bandaríkjunum, Filippseyjum, Serbíu og Póllandi, en frá árinu 2009 hafa líka fjórtán manns sem fæddust á Íslandi fengið ríkisborgararétt. Flestir þeirra hafa að öllum líkindum haft réttinn fyrr á ævinni en svo misst hann af einhverjum orsökum.

Lög um íslenskan ríkisborgararétt fela í sér ýmis skilyrði sem umsækjandi þarf að uppfylla, meðal annars um lágmarkslengd búsetu hér á landi. Almennt er miðað við sjö ár, en því til styttingar kemur meðal annars hvort viðkomandi sé frá Norðurlöndunum, sé giftur íslenskum ríkisborgara eða eigi íslenskan ríkisborgara að öðru foreldri.

Uppfylli einstaklingur ekki þessi skilyrði er hægt að snúa sér til Alþingis þar sem undirnefnd allsherjar- og menntamálanefndar tekur málið til umfjöllunar og veitir undanþágur eftir atvikum, vegna mannúðarraka, persónulegra aðstæðna eða sanngirnissjónarmiða.

Þessi háttur hefur tíðkast um áratugaskeið, en hefur þó verið umdeildur. Skúli Helgason alþingismaður, sem leiddi vinnu undirnefndarinnar, segir fulla ástæðu til þess að endurskoða lög um íslenskan ríkisborgararétt í heild sinni.

„Sjálfum finnst mér þetta fyrirkomulag, að Alþingi veiti undanþágur sem þessar, vera sérkennilegt. Lög um íslenskan ríkisborgararétt eru orðin sextíu ára gömul og þó þeim hafi verið breytt í gegnum tíðina finnst mér kominn tími á heildarendurskoðun. Ég teldi eðlilegt að þau yrðu skoðuð í samhengi við þau skilyrði sem þarf að uppfylla til að hljóta hér dvalar- og búsetuleyfi. Eftir lagfæringar á lögunum verði það einungis í undantekningartilfellum sem menn fái undanþágur frá Alþingi."

Skúli óskar nýju Íslendingunum velfarnaðar og hvetur þá sem ekki komust að í þetta sinn til að reyna aftur síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×