Aðdragandi opnunarinnar var þó langur en Dagný stundaði nám á sóknarbraut Nýsköpunarmiðstöðvar fyrir nokkrum árum og nýtti sér þá hugmyndina að kaffihúsi samhliða Höndum í Höfn við nám- og verkefnavinnuna þar en Nýsköpunarmiðstöðin hvatti hana til dáða við framkvæmdina. Einnig hefur hún sótt ýmis námskeið varðandi markaðs- og kynningarmál sem hafa komið að góðum notum við þessa vinnu.
„Ég hef ávallt haft mikla ástríðu fyrir matargerð og bakstri.“ Dagný tók þátt í sjónvarpsþættinum Masterchef síðastliðið haust og setti sér það markmið að ef hún næði upp í 25 manna úrtökuhóp léti hún drauminn um kaffihús í Þorlákshöfn rætast. „Ég stóð við stóru orðin og lét slag standa.“ segir Dagný létt í lundu.
Innviðir kaffihússins eiga það sameiginlegt að vera komnir til ára sinna en hafa fengið upplyftingu og nýtt hlutverk. Í Höndum í Höfn má meðal annars kaupa ýmsa glervöru og lífsstílstengdar matvörur frá Nicolas Vahé. „Ég notast við ösku úr Eyjafjallajökli og sand úr nálægri fjöru í glermunina mína.“
Dagný hefur mikinn metnað til matargerðar og leggur mikið upp úr því að nota ávallt úrvalshráefni. „Hráefnið kemur að mestu leyti beint frá býli og veitingarnar eru lagaðar frá grunni á staðnum.“
Þá hefur staðurinn einnig verið virkur í tónleikahaldi og hafa ýmsir listamenn komið þar fram að undanförnu.
Hendur í Höfn er opið frá fimmtudegi til sunnudags en opið er fyrir hópa utan opnunartíma.
