Innlent

Veikasta fólkið fær nýja álmu

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Það voru konurnar á vaktinni í gær sem tóku fyrstu skóflustunguna að nýrri álmu en Arnþór segir mikinn meirihluta starfsfólks SÁÁ vera konur.
Það voru konurnar á vaktinni í gær sem tóku fyrstu skóflustunguna að nýrri álmu en Arnþór segir mikinn meirihluta starfsfólks SÁÁ vera konur.
„Þetta var mjög góður dagur. Þessi álma verður fyrir allra veikustu sjúklingana sem þurfa mikla aðstoð og aðhlynningu,“ segir Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, en fyrsta skóflustunga nýrrar álmu við sjúkrahúsið Vog var tekin fyrir helgi.

Til stendur að framkvæmdir hefjist innan skamms og á þeim að ljúka í maí á næsta ári. Arnþór segir að allra veikustu sjúklingar sjúkrahússins komi til með að dvelja í sérherbergjum nýju álmunnar. „Þetta eru sjúklingar sem eiga erfitt með að dvelja í herbergjum með öðrum og þeir þurfa virkilega á þessu að halda.“

Auk þessa verður aðstaða vaktar- og lyfjavörslu endurnýjuð til að uppfylla nútímakröfur um öryggi starfsfólks og sjúklinga. Sjúkrahúsið Vogur verður 30 ára í desember og hafa um 24 þúsund einstaklingar þurft að leita sér aðstoðar á Vogi frá stofnun sjúkrahússins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×