Innlent

Íslenskur hestur limlestur í Skotlandi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hesturinn sem um ræðir heitir Hrafn.
Hesturinn sem um ræðir heitir Hrafn.
Íslenskur hestur fannst illa limlestur á hestabúgarði í Edinborg á dögunum. Hesturinn, sem er 23ja ára gamall geldingur, og gegndi kallinu Hrafn fannst blóðugur á Swanston búgarðinum á fimmtudag. Limur hans hafði verið skorinn af og hékk hann á þvagrásinni einni saman. Limurinn var svo fjarlægður með neyðarskurðaðgerð. „Dýralæknirinn ráðlagði að aðgerðin yrði gerð með beittu áhaldi," sagði John Toule, SPCA í Skotlandi. SPCA er samtök dýraverndunarsinna.

Toule segir að allt bendi til þess að um grófa árás hafi verið að ræða. Eigandi Hrafns kom að honum á fimmtudaginn. Hún hafði áður séð hann á miðvikudaginn og því er talið að hestinum hafi verið misþyrmt seinnipart miðvikudags eða á fimmtudagsmorgni.

Toule segir að hesturinn hafi misst mikið blóð og þó að hann væri enn á fótum væri hann mjög veiklaður. „Það er erfitt að skilja hvernig nokkur maður getur gert svona lagað við varnarlaust dýr og þessi árás vekur virkilega hjá manni áhyggjur," bætti hann við. „Að valda svona dýri óþarfa þjáningu er glæpur og hver sem verður fundinn sekur um slíkt getur búist við því að honum verið bannað að eiga dýr í langan tíma," sagði hann enn fremur.

Eigandi Hrafns vildi ekki koma fram undir nafni en hann sagði við BBC að þessi verknaður væri til marks um heigulshátt og grimmd. Hann sagði að Hrafn væri í áfalli. „Hann er svo ljúfur og góður eldri hestur að það er erfitt að ímynda sér hvernig nokkur maður getur kvalið dýr með þessum hætti," segir eigandinn.

Nánar er fjallað um málið á vef BBC.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×