Innlent

Farangrinum stolið - draumafríið á Íslandi breyttist í martröð

Rob og Nadine Temple í Bláa Lóninu.
Rob og Nadine Temple í Bláa Lóninu. Skjáskot af yorkpress.co.uk.
Parið Rob og Nadine Temple frá Kirkbymoorside á Englandi fóru í draumafríið til Íslands fyrir nokkru, en það breyttist í martröð að lokum.

Þegar parið beið eftir að rúta færi með þau á Keflavíkurflugvöll eftir vel heppnað frí, stal óprúttinn aðili farangri þeirra úr anddyri hótelsins, samkvæmt breska miðlinum York Press.

Í farangrinum voru vegabréfin þeirra, peningar, greiðslukort, iPad-spjaldtölva auk bíllykla og flugmiða.

Þegar upp komst að töskunni hafði verið stolið leitaði parið á náðir breska sendiráðsins sem gat ekki útvegað þeim vegabréf til bráðabirgðar þá stundina. Rob hafði því samband við móður sína sem sendi þeim peninga rafrænt til Íslands.

Parið beið eftir því að bankinn opnaði og komst þá að því að þau þurftu að hafa persónuskilríki á sér til þess að fá peninginn. Tveimur tímum síðar komust þau að því að þau voru stödd í vitlausum banka.

Þau fengu að lokum peninginn og sendiráðið gat útvegað þeim vegabréfin. En raunum parsins var ekki lokið. Átján klukkustundum síðar voru þau komin til Bretlands en þá lentu Þau á Heathrow flugvellinum, en ekki í Manchester, þar sem bíllinn þeirra var.

Eftir þessar hrikalegu raunir létu parið reyna á það að fá bætur frá tryggingafélagi flugfélagsins, eða um 2500 pund, sem eru um hálf milljón íslenskra króna. Kröfunni var hafnað á þeim forsendum að þau hefðu litið út um gluggann þegar þjófnaðurinn átti sér stað. Í reglum félagsins segir að flugfélagið sé ekki ábyrgt fyrir þjófnaði ef ferðalangurinn sér ekki, eða er ekki nægilega nálægt farangrinum.

Ron segir þetta lélega afsökun í viðtali við York Press, ekki síst vegna þess að þau voru ekki stödd fyrir utan hótelið, heldur voru þau inni í anddyri þess með farangurinn nokkuð nálægt sér.

Talsmaður tryggingafélagsins vildi ekki tjá sig um málið við York Press.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×